Monday, October 10, 2005

 

Tvíburaturnar.

Það nýjasta í skipulagsmálum hér á Selfossi er að byggja 2 sextán hæða turna við brúarsporðinn. Svona nokkurnveginn ofan á stóru jarðskjálftasprungunni. Vona nú að snillingnum sem datt þetta í hug verði ekki að ósk sinni. Legg til að turnarnir verði reistir við höfnina í Vestmannaeyjum. Hinsvegar má vel rýmka til í miðbænum. Við verðum víst að kalla þetta miðbæ þó Selfoss sé nú enn bara smáþorp í mínum huga. Og ég óttalegur þorpari. Tel þetta þó alls ekki vera minnimáttarkennd. Örugglega skynsamlegri afstaða en hjá mörgum Reykvíkingum sem halda að borgin sé miðja alheimsins. Sumir varla komið innfyrir Elliðaár. Mér finnst nú reyndar vænt um borgina. Átti þar ágæta vist í nokkur ár. Stutt á Mímisbar og Astrabar frá Nýja-Garði. Frítt í Háskólabíó og það var óspart notað. Mikið vatn runnið til sjávar síðan og þetta einungis hluti af hinni liðnu tíð.
Allar sameiningartillögur kolfelldar hér á svæðinu. Dróst á kjörstað til að segja nei. Það hefði ekki verið par gott að vakna upp á sunnudagsmorgni og vera orðinn að fúlgerðingi. Ég get ekki séð nokkra ástæðu til að sameina Hveragerði og Selfoss. Hvergerðingar vilja ekkert með okkur hafa og við ekkert sérstaklega hrifnir af þeim. Samt langt í frá að ég hafi nokkuð á móti þessu fólki. Best að það fái að stjórna sínum bæ og við okkar. Raikonen liggur hér á borðinu. Ástfanginn af nýrri flískúlu sem honum hlotnaðist í fyrradag. Hefur hana hjá sér á nýjum svefnstað. Baðvaskurinn er hinn nýi beður. Ekki held ég að ég vildi sofa í baðkarinu. Hann heldur uppteknum hætti við uppvakningar sínar að næturþeli. Lofa honum að vera húsbónda enn um sinn. Ég vona sannarlega að hún Helga mín losni fljótt við lungnabólguna. Bara aldeilis bráðnauðsynlegt hið snarasta. Getur þó aðeins bloggað annað slagið. Meira en sagt verður um suma aðra bloggara. MS og frú Hatseput endanlega þögnuð. Og hið 27 ára skáld ekki bráðduglegt heldur. Stendur vonandi til bóta. Með kveðju frá okkur morgunljónunum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online