Monday, October 03, 2005

 

Smurgæs.

Ég var að kíkja á bloggið hans Sigga í Málmey. Stækkaði myndina af honum Lasse.Þessum með hormottuna stóru. Þá kom upp minning frá Mallorka árið 1977. Ég sá einhversstaðar skilti sem á stóð: Smörgås. Og hugsaði með mér að þarna þyrfti ég að fá mér að borða. Smurgæs hlyti að vera alveg sérstakt lostæti. Búið að mýkja kjötið alveg sérstaklega með smjöri. Svona var nú málakunnáttan þá og hefur ekki skánað mikið síðan. Auðvitað varð ég að athlægi fólks fyrir heimsku mína. Og engin gæs. Nærðist áfram á hamborgurum, kjúklingum og öðru álíka ruslfæði. Og þegar minnst er á rusl og fæði dettur mér Latibær í hug. Þeir nafni minn og fleiri voru að ræða um þessa framleiðslu. Ég er þeim hjartanlega sammála. Búinn að leggja á mig nokkra þætti. Og slappastur af öllum er íþróttaálfurinn sjálfur. Smáglæta í Glanna glæp einstaka sinnum. Margt af þessu svokallaða barnaefni er nú ekki uppá marga urriða. En hér keyrir alveg um þverbak. Höfundur Dallas vissi vel að hann var að framleiða rusl. En meðan hann gæti grætt á ruslinu væri þetta bara ágætt. Skiljanlegt sjónarmið. En ég er viss um að Magnúsi gúmmítarsan finnst þetta raunverulega mjög gott.Átakanlegt og ömurlegt. Hugmyndafátæktin í hnotskurn.
Við Raikonen búum hér nánast í útjaðri Selfoss til suðurs og austurs. Góðar veiðilendur við bæjardyrnar. Fann lík á stofugólfinu í gærmorgun. Vona að hagamúsin sé nú á himnum en líkið fjarlægði ég snarlega. Hann situr nú hér og sleikir tær sínar eftir könnunarleiðangur í rigningunni. Og ég held svei mér þá að hann sé enn liðugri en Magnús Latabæjarstjóri.

Smá vopnahlé í Baugsmálinu. Hæstiréttur að hugsa ráð sitt. Fróðlegt að heyra niðurstöðuna. Og nokkuð merkilegt að hlusta á viðskiptaValgerði í kastljósinu. Varpaði sannarlega ljósi á afstöðu íhaldsins til óháðra eftirlitsstofnana. Ekkert hægt að gera fyrr en fjármálaráðherra kæmi aftur til landsins. Samkvæmt þessu er svo að sjá að eftirlitsstofnun skuli bíða eftir því hvort íhaldið segi urdann bíttann. Kemur reyndar ekki á óvart. Nóg um það að sinni. Og kannski orðið nóg bloggað af minni hálfu yfirleitt. Með bestu kveðju, ykkar Hösmagi.

Comments:
Vona að Lasse sómi sér vel á tölvuskjánum á Selfossi. Þú hefur þetta líka í huga sjálfur ef þú skyldir taka upp á því að opna sjálfur stofu og fara að praktísera: Setja upp skilti með stórri og fínni mynd. Og bjóða upp á smjörgæsir fyrir viðskiptavinina.
 
Nei, ekki hætta að blogga. Ég skal lofa bót og betrun sjálfur ef það má verða hvatning. Bloggaði aðeins í gær og skal herða mig!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online