Monday, October 24, 2005

 

Valkyrjurnar.

Kvennadagurinn mikli liðinn. Man vel eftir þessum degi árið 1975. Frú Hatseput og lille Beggý fóru til Reykjavíkur en við Magnús sátum eftir heima. Tók stráksa með mér í vinnuna. Við hliðina á skrifstofu minni var ferðaskrifstofa. Ferðaskrifstofumaðurinn var líka einn með peyjann sinn. Enginn viðskipti og síminn þagði. Svo við fengum okkur bara í glas. Við hina hlið skrifstofunnar var Siggabúð. Þar stóðu peyjarnir í sælgætinu allan daginn. Tengdamamma var af gamla skólanum. Botnaði ekkert í þessu jafnréttisbrölti ungu kvennanna. Eldaði læri handa tengdasyninum. Mæðgurnar skiluðu sér úr höfuðstaðnum og þetta varð bara ágætur og eftirminnilegur dagur. Það hefur ef til eitthvað áunnist á þessum 30 árum. Hinsvegar hef ég aldrei skilið inntakið í sumu af þessari baráttu. Við erum öll af sömu tegundinni. Köllum okkur homo sapiens. Mismunandi gefin og hæf. Þar skiptir kynferðið engu. Þessvegna er mér t.d. kynjakvóti í stjórnmálum ekki að skapi. Og þar eru vinstri menn enn verri en íhaldið. Það er ekki nokkur lógík í því að skiptingin eigi að vera fifty fifty. Tryggir ekki jafnrétti, sanngirni eða yfirleitt eitt eða neitt. Enda var Bergþóra sögð drengur góður. Hinsvegar er höfuðatriði að jafna launamuninn. Þetta illskiljanlega misrétti sem viðgengst enn. Og ofbeldið gegn kvenfólkinu er að sjálfsögðu ólíðandi með öllu. Vonandi verður þessi upprifjun í gær til þess að árangur náist. Og helst ekki seinna en strax á morgun. Það verða auðvitað alltaf til pungrottur. Karlrembur af verri sortinni. En sem betur fer erum við nú fleiri sem sem viljum uppræta misréttið.

Ég skrapp til höfuðborgarinnar á laugardaginn var. Ók nýja veginn um Svínahraunið. Mér með öllu óskiljanlegt hvernig hægt er klúðra svona nýrri framkvæmd. Ef stór bíll verður vélarvana á veginum kemst enginn framhjá nema fuglinn fljúgandi. Og menn eiga væntanlega að keyra á sprungnu þangað til möguleiki er á að stoppa og skipta um dekk. Vegagerðin reynir að sjálfsögðu að klóra yfir skítinn sinn. En að lögreglan skuli taka undir delluna skil ég ekki. Nema auðvitað lögreglustjórinn á Selfossi. Hann á það nefnilega sammerkt með guði almáttum að vera allsstaðar nærri og vegir beggja órannsakanlegir.Þessi nýi vegur er einfaldlega hættulegur. Auðvitað á vegagerðin að viðurkenna það og gera nauðsynlegar lagfæringar strax.

Sama aðgerðarlitla veðrið. Bara indælt og endist vonandi sem lengst. Gott veður til músaveiða að morgni dags hér í Ástjörninni. Mýsludans hér á stofugólfinu í gærmorgun. Ég var nú grimmur aftur og kom dýrinu burt. Og Raikonen soldið sár. En laun heimsins eru ævinlega vanþakklæti. Og svona í lokin. Ónefndur bloggari lofaði bót og betrun um daginn. Ætlaði að herða sig. En hann er nú ansi linur enn. Sér vonandi þessi orð og bætir úr. Kveðja úr kyrðinni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online