Sunday, February 13, 2005

 

Dauðinn og sorgin.

Ég fór að hugleiða þessa hluti eftir að hafa lesið bloggið hennar Helgu Soffíu. Þar sem hún er að tala um nýlátna ömmu sína. Þegar Langi-Sveinn, faðir minn dó 1992 fann ég ekki til nokkurrar sorgar. Hann var nýorðinn 90 ára gamall. Kominn á langlegudeildina á Ljósheimum. Ekkert framundan nema biðin eftir að deyja. Hún varð ekki löng. Og mér kom það ekki á óvart. Þessi lífsglaði maður vildi ekki liggja lengi og geta ekkert annað. Hversvegna skyldum við syrgja svona gamalt fólk. Faðir minn hafði lifað langa og farsæla ævi. Hann hafði lokið sínu hlutverki hér á jörðu. Og dauði hans var bara í samræmi við það. Í stað sorgar fann ég bara hvað ég var þakklátur fyrir að hafa átt slíkan föður. Fyrir að hafa átt mig og alið og komið mér til manns. En að sjálfsögðu saknaði ég hans fyrst í stað. Fannst skrítið að heimsækja mömmu á Birkivellina og stóllinn hans auður. Það var svipað uppá teningnum þegar hún lést 8 mánuðum síðar. Kom mér þó á óvart að nokkru leyti. Hélt að hún myndi eiga nokkur góð ár eftir. Ég held að ég hafi erft rólyndi mitt og jafnlyndi frá henni. Mér verður ávallt í huga hjartanlegur hlátur hennar. Það var alltaf ærið tilhlökkunarefni þegar von var á móður hennar. Sæunni, " ömmu í Reykjavík". Ekki spillti góðgætið sem hún hafði jafnan meðferðis. En mesta tilhlökkunarefnið var að fá að sitja í eldhúsinu á kvöldin og hlusta á samræður þeirra mæðgna. Þær töluðu um allt milli himins og jarðar. Og þær grétu oft af hlátri. Þessum einlæga dillandi hlátri sem leysir svo yndislega hluti úr læðingi. Ég hafði heyrt um fólk sem gréti úr hlátri. Átti erfitt með að ímynda mér það. En svo sannarlega skildi ég hvað við var átt eftir að hafa setið með þeim mömmu og ömmu kvöldlangt í eldhúsinu á Selfossvegi 5. Ég hef þó kynnst sorginni. Flokka hana stundum. Ástarsorgin varir nú yfirleitt stutt. Félagslega sorgin getur verið þungbær. Og sorgin yfir ástvinnamissi náins ættinga, vinar og sálufélaga sem deyr skyndilega þegar allt lífið er framundan er erfuðust af þessu öllu.
Sagt er að tíminn lækni öll sár. Það er þó alls ekki þannig . Hinsvegar hjálpar tíminn okkur við að sætta okkur við það sem orðið er. Því fáum við ekki breytt. Og lífið heldur áfram með vonum okkar, væntingum og þrám. Sendi öllum bloggurum hér mínar bestu kvðjur. Og hvernig væri að bloggarinn MS færi nú að útdeila svolítilli speki. Ykkar Hösmagi.

Comments:
Ritspeki Magnúsar skyldi föður hans lík og þá á blogg berast.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online