Monday, February 21, 2005

 

Sýslumaðurinn.

Um daginn, þegar haugað hafði niður snjó dögum saman, sá ég að svalirnar hjá mér voru orðnar nærri fullar af snjó. Mér datt strax í hug að sækja skófluna í bílskúrinn og moka snjónum fram af svölunum. En þá datt mér Páll Hallgrímsson, fyrrverandi sýslumaður Árnesinga, í hug. Var skipaður 1. janúar 1937 og lét af störfum eftir 45 ár, 1972, þá sjötugur. Hann lifir enn og er 93 ára. Á árum áður, áður en hinir mildu vetur urðu, voru gjanan óhemjusnjóþyngsli við sýsluskrifstofuna. Snjórinn fauk af mýrinni milli Ölfusár og skrifstofunnar og leitaði skjóls framan við hana.Varð af þessum sökum æði torfært að þessum kontór. Á þessum árum þurftu ellilífeyrisþegar að sækja ellilaunin til sýslumannsins. Honum var bent á að erfitt væri fyrir þetta gamla lið að klífa fjöllin og jöklana sem höfðu skotið rótum framan við dyrnar og lögðu til að planið yrði mokað. Sýsli var ákaflega samhaldssamur og dró ekki fram veskið að þarflausu. Rök hans gegn mokstri voru einföld og skýr. Sá sem setti snjóinn þarna ætti einfaldlega að fjarlægja hann. Og við þetta sat. Það var sem sé meira og minna ófært að þessari opinberu stofnun frá hausti til vors. Ekki kæmi mér á óvart þó þetta hafi riðið sumu af gamla fólkinu að fullu. Í morgun var snjórinn horfinn af svölunum. Sá sem hlóð honum þar niður fjarlægði hann.Einfalt og þægilegt. Gamla máltækið" Svona eiga sýslumenn að vera" er í fullu gildi. Margar skemmtilegar sögur eru til af sýslumanni þessum. Segi kannski seinna söguna af því þegar ég átti fótum mínum fjör að launa undan honum. Kunni ekki að meta það sem ég sagði honum. Sennilega af því að sannleikanum verður hver sárreiðastur.Ber samt hlýjan hug til gamla mannsins á ævikvöldi hans. Hann var húmoristi ágætur og slíkum mönnum fyrirgefst nú flest. Hér á Selfossi er nú mikið indælisveður. Blankalogn og 8° og vorið flæðir inn um galopnar svaladyrnar. Kaffið smakkast jafnvel betur á svona morgnum en aðra morgna. Baráttukveðjur til þeirra fóstbræðra,Sigga sænska og Sölva skoska í átökunum við fræðin. Bestu kveðjur til ykkar allra. Svo mælti Hösmagi.( Heyrði brot af Svo mælti Zaraþústra fyrir nokkrum dögum. Dásamlegt)

Comments:
Kveðjur sömuleiðis til Ölfusárbakka (þangað sem hugurinn hlýtur að leita í vorblíðunni á Suðurlandi).
 
Ég hygg að snjórinn sem þú mokaðir ekki af svölunum hafi fokið suður með Atlantshafi hingað tl Edinborgar þar sem hann þráast við að ná taki á húsþökum og gangstéttum í blíðunni.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online