Wednesday, February 23, 2005

 

Morð og eyðilegging.

Góðan dag góðir bloggarar. Sama vorblíðan hér, súld og 3 gráður. Fyrir kosningarnar 1999 fékk ég póstkort frá framsóknarflokknum. Með prýðisgóðri mynd af Guðna Ágústssyni. Var svona einskonar liðsbón. Hvort ég gæti nú ekki bara kosið framsókn svona einu sinni. Þeir voru með skrifstofu hinu megin götunnar. Ég sendi þeim tölvupóst og sagði þeim að ég þekkti Guðna persónulega og hann væri alls góðs maklegur. Um þessar mundir var Nató að sprengja Belgrad aftur á steinaldarstig. Ég sagði þeim að Halldór Ásgrímsson bæri fulla ábyrgð á þessu morð- og eyðileggingaræði. Því væri mér nú ekki auðvelt að greiða flokki hans atkvæði í komandi kosningum. Undirskrift mín var svona: Sigurður Sveinsson, veiðimaður, kvennamaður og kattavinur, Selfossi. Ég frétti síðar að þeir hefðu orðið klumsa við þessum tölvupósti. Og líklega afskrifað þetta atkvæði strax. Aftur komu kosningar 2003. Þá fékk ég ekkert kort frá framsókn.Líklega ekki reiknað með liðsauka frá undirrituðum. Þeir voru nefnilega við sömu iðjuna og fjórum árum fyrr. Bara nokkru sunnar. Innrásin í Írak nýhafin. Og að sjálfsögðu á ábyrgð áðurnefnds Halldórs. Hvar skyldi hann bera niður fyrir næstu kosningar? Það er ömurlegt að þurfa að bera ábyrgð á þessu viðbjóðslega og ólögmæta stríði. Háð á algjörlega fölskum forsendum. Og með afleiðingum sem enginn sér fyrir endann á.Í umræðum á þingi um daginn sagði Geir Harði að nauðsynlegt hefði verið að " taka þátt í uppbyggingunni í Írak."Eru til meiri ögugmæli? Er það uppbygging að ráðast á þjóð, eyðileggja flest sem hægt er að eyðileggja og drepa saklausa borgara í tugþúsundavís? Líklega finnst þessum undirlægjum það. 300 milljónir króna voru lagðar fram úr ríkissjóði í þessa "uppbyggingu" Glæsilega að verki staðið.Einu sinni var sagt að allt væri betra en íhaldið. Ég held að framsóknaríhaldið sé ekki betra.Syrgði það ekkert sérstaklega þó það fengi frí frá landstjórninni eftir næstu þingkosningar.Og að öðru. Ég samfagna nafna mínum í Stokkhólmi með bókmenntaverðlaunin. Virkilega ljúft að Sjón skyldi fá þessa viðurkenningu. Gott skáld. Einhvern veginn finnst mér að þeir félagar Einar Kára og Einar Már séu orðnir svolítið sjálfhverfir í seinni tíð. Svolítið værukærir og of sannfærðir um eigið ágæti. Kannski er þetta illa sagt og ekki rétt. Verður bara að hafa það. Á maður ekki að koma til dyranna eins og maður er klæddur?Með bestu kveðjum frá ykkar Hösmaga.

Comments:
Já, Stokkhólmur sem og Selfoss gleðst með Sjón (svo ekki sé talað um Eyrarbakka, dvalarstað skáldsins). Jú, og fyrr skulum við nafnarnir dauðir liggja en að við krossum við B á kjördag - hvað þá D!
 
Til hamingju með daginn pápi minn!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online