Monday, February 14, 2005

 

Hversdagsleikinn.

Undirritaður vaknaði snemma í morgun eins og stundum áður. Mjög hress, enda komin hláka á ný. Fór í morgungöngu. Að henni lokinni fann ég allt í einu hvöt hjá mér til að þvo úlpuna mína. Tók úr henni veskið, lykla og fleira smávegis og tróð henni svo í vélina. Ekki löngu síðar, á 3ja kaffibollanum, kviknaði löngun í vindil. En þá vantaði vindlana og Zippóinn.Það rann upp fyrir mér ljós. Þeir voru í úlpunni. Þegar vélin var búinn sá ég Zippóinn gægjast út um gluggann. Og vindlapakkinn var í frumeindum sínum á úlpunni og um alla vélina. Líklega hafði ég farið öfugu megin framúr eins og hendir besta fólk. Þegar haldið var til vinnu kom upp nýtt vandamál. Ég hafði sem sé verið með aðra fjarstýringuna að bílskúrshurðinni í sama vasanum. En hvar var hún nú. Ekki í vasanum og ekki í tromlunni. Var hún einnig komin í öreindir sínar? Ég fínkembdi tromluna en áhaldið var gufað upp. Ég á aðra svo ég náði Rauð mínum af stallinum. Í hádeginu tók ég síuna úr vélinni. Fannst vera þar leifar af frönskum rennilás líkt og fjarstýringin hafði státað af. Hringdi svo í fyrrverandi eiganda og sagði mínar farir ekki sléttar og leitaði upplýsinga um hvar hann hefði keypt þennan útbúnað. Í Húsasmiðjunni. Viðar Bjarnason væri sérfræðingur í þessu. Samtalinu lauk nú á léttu nótunum og ég hugðist gera mér ferð í búðina eftir vinnu. Svo líður kortér. Þá hringir Eiríkur lögga aftur. Segir útilokað að batteríið í græjunni hafi gufað upp og segir mér að hefja rannsókn á úlpunni. Við fyrsta þénanlega tækifæri stalst ég úr vinnunni. Snaraði mér upp stigann og beint í þvottahúsið. Upphófust þar talsverðar þreifingar. Líkt og á meyjunum í dentíð. Og viti menn. Haldiði ekki að græjan komi í ljós í annari erminni. Gljáandi fögur eins og nýhreinsaður hundur á vordegi. Ég varð að sjálfsögðu allur uppveðraður yfir þessu. Stakk þessum dýrgrip í vasann, hljóp niður stigann og beindi honum óðara að dyrunum á þessu eftirlæti mínu sem hýsir Rauð minn um nætur. Og það var eins og við manninn mælt. Þetta sem sé svínvirkaði eftir þvottinn og dyrnar lukust upp. Og lokuðust að sjálfsögðu við næsta klikk.Svona getur nú lífið verið skemmtilegt á Selfossi. Og það á mánudegi. Svona eiga góðar græjur að vera. Bestu kveðjur frá ykkar einlægum Hösmaga.

Comments:
Jaherna her segi eg nu bara. Annars allt gott herna megin og skoli kominn a fullt a ny, loksins.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online