Sunday, February 20, 2005

 

Hin tæra snilld.

Séð hef ég skrautleg suðræn blóm
sólvermd í hlýjum garði;
áburð og ljós og aðra virkt
enginn til þeirra sparði;
mér var þó löngum meir í hug
melgrasskúfurinn harði,
upprunnin þar sem Kaldakvísl
kemur úr Vonarskarði

Þetta er hin tæra snilld. Einkennilegt hvernig þetta erindi úr Áföngum Jóns Helgasonar höfðar sterkt til mín. Og jafnan er mér dettur það í hug heyri ég skáldið flytja það. Með sinni óviðjafnanlegu rödd. Ef til vill minnir þetta mig á hálendið sem alltaf togar í mig þegar sól fer að hækka á lofti. Kaldakvísl minnir líka á Þórisvatn. Þar eru silfraðar verur á sveimi. Líkt og í nágrenninu, Veiðivötnum, nema þar eru verurnar dekkri á hörund. Heilsa uppá þær 12. ágúst í sumar. Þá verða 96 ár liðin frá fæðingu móður minnar sælu.Finnst vænt um þennan dag. Mér ákaflega happadrjúgur í veiði. Reyndar hefur 27. júni líka verið góður. Afmælisdagur föður míns.
Svo aldurinn segi nú aðeins til sín þá get ég sagt ykkur að þennan dag 1987 dró ég 5 laxa að landi úr Ölfusá. Þeir voru, 5, 13, 14, 16 og 18 punda þungir. Dásamleg minning.Og væntingarnar um stóra fiska eru alltaf til staðar. Bróðir vinkonu minnar er spíritisti. Einhverju sinni vorum við að ræða um lífið og tilveruna. Og dauðann. Ég sagði við hann að það versta við að hverfa héðan úr táradalnum væri að þá lyki veiðiskapnum. Hann svaraði að bragði: Blessaður góði, það er nóg af góðum veiðiám hinumegin. Vonandi er þetta rétt og mæli hann manna heilastur. Vona að árnar og vötnin hinumegin bíði. Hef líka á tilfinningunni að ég eigi eftir að veiða hérnamegin í áratugi í viðbót. Og vonandi með skáldinu mínu og bróður þess sem oftast. Bestu kveðjur frá mér. Hugsandi um stóra fiska( og minni líka) eins og stundum áður, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ég er að velta einu fyrir mér: ef það eru ár hinu megin, þá hljóta að vera fiskar þar. Ef það eru fiskar þar þá hljóta það að vera fiskar sem veiddust hérna megin. En þá spyr ég - hvert fara þá þeir hérnameginveiddu fiskar hinumegin þegar þeir veiðast þar? Er enn eitt öðrumegin? Er þetta þá kannski bara hver táradalurinn á fætur öðrum? Hvert lífið á fætur öðru? Verðum við samstíga í því eða fá kannski hinir fótumtroðnu héðanmegin að fá betra líf öðrumegin? Tja, hver veit...
 
Ég hef svo sem ekki stórar áhyggjur af þessu, Helga mín. Samt gaman af þessum hugleiðingum þínum.Líklega er erfit að leysa lífsgátuna í eitt skipti fyrir öll.En pælingar eru nauðsynlegar.Og skemmtilegar.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online