Wednesday, February 09, 2005

 

Kjarval og kaupfélagsstjórinn.

Undirritaður vinnur í sögufrægu húsi á Selfossi, Sigtúnum. Egill Thorarensen, fyrsti kaupfélagsstjóri Kaupfélags Árnesinga byggði þetta hús 1936. Á einum veggnum hangir uppi mynd af karlinum og líklega svífur andi hans enn um húsið.Honum er þó líklega ekki rótt eftir að íhaldið náði tökum á kaupfélaginu og kom því fyrir kattarnef. Útförin hefur þegar farið fram og íhaldið grætur þurrum tárum. Kjarval og Egill voru kunningjar. Þegar Egill átti eitt sinn stórafmæli kom Kjarval í heimsókn. Kjarval fékk rútu frá Steindóri til að flytja sig austur. Bara nokkuð stór leigubíll. Meðferðis hafði hann stóran pakka c. 2x3 metrar. Allir gestirnir biðu að sjálfsögðu í ofvæni eftir að pakkinn yrði opnaður til að berja málverkið augum.Það kom nú að því. Inní pakkanum var stór rammi, síðan annar minni og svo margir aðrir. Innst var lítill rammi og í honum miði. Á miðanum var lítið ljóð sem hljóðaði svo:

Hrossaskítur hrossatað
hvað er nú það?
Jú, hrossaskítur hrossatað
það er nú það.

Það varð nú víst heldur vandræðalegt upplitið á afmælisgestunum. Að þessu loknu kvaddi Kjarval og hélt með stóru rútunni til Reykjavíkur. Hún hafði að sjálfsögðu beðið á meðan eins og góðir leigubílar gera ef um er beðið. Svona getur nú venjulegt hrossatað verið skemmtilegt. Það fylgir ekki sögunni hvernig Egill tók þessu. Hann þekkti málarann vel og hefur sennilega skemmt sér yfir þessu tiltæki.

Og að öðru óskyldu. Einkadóttirin verður 37 ára á morgun og sonur hennar og nafni minn, lambakóngurinn hans afa, verður 18 á laugardaginn. Sjálfræði og kosningaréttur fylgir.Ósköp finnst mér samt stutt síðan ég hélt honum undir skírn og hann ældi á öxl mér. Líklega er fátt sem skiptir meira máli í lífinu en jafnvægi hugans og að uppgötva hvað það er sem gerir mann sáttan við tilveruna. Þessir litlu hlutir eins og eitt blóm að vori og ilmur þess. Og fuglinn sem syngur fyrir þig einan ef þú ert að hlusta og nota skilningarvitin. Það er gott að finna það nú hvað ég er í raun hamingjusamur maður í dag þrátt fyrir andstreymi á stundum á liðnum árum. Að eiga þrána enn. Þrána eftir vorinu og birtunni og að hlakka til komandi daga og þess hvað þeir bera í skauti sér. Meira síðar, ykkar Hösmagi.

Comments:
Að sjálfsögðu verður lambakóngurinn 19 ára en ekki 18. Greinilega hálfkalkaður afi.
 
Ég hefði nú frekar kosið að fá málverkið. En sumir myndlistarmenn virðast nískir á verk sín. Til dæmis föndraði Picasso víst ýmislegt fyrir barnabörnin sín sem þau máttu síðan ekki eiga af því það var "Picasso". Nóg um það, sendi öllum kveðju mína, ekki síst móður lambakóngsins, sem á afmæli í dag - og syni hennar, sem á afmæli á morgun.
 
Kveðja frá Hatseput, nýjasti bloggarinn á svæðinu.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online