Thursday, February 17, 2005

 

145 ár.

Jæja góðir hálsar.Ekki dugar að slá alveg slöku við bloggið. Svo sem ekkert sérstakt gerst síðan síðast. Nema bara allt nokkuð gott. Í dag eru 145 ár liðin síðan hún amma mín í föðurætt fæddist.Hún dó í september 1960 og varð því ríflega 100 ára.Hún hét Hallbera. Nokkuð gott nafn, finnst mér. Systir hennar, Þorbjörg, varð 104 ára. Langlífi í föðurættinni. Hef sjálfur ekkert á móti því að verða háaldraður ef heilsan helst góð. Gæti vel hugsað mér að sitja flötum beinum og dorga á 99 ára afmælinu. Og ég er alveg ákveðinn í að verða ekki erfitt og leiðinlegt gamalmenni. Kannski svolítið skondið að hugsa til þess að við feðgarnir þrír færum saman í veiði og allir komnir á ellilaun. En það á mikið af vatni eftir að renna til sjávar áður. Það eru miklar annir hjá undirrituðum á vinnustað. Ákaflega gott því ekkert er leiðinlegra en að sitja við skrifborð og hafa ekkert fyrir stafni. Enda aðgerðaleysi almennt slæmt fyrir geðheilsuna. Samt afskaplega gott að slappa af í góðum stól, lygna aftur augunum og láta sig dreyma svolítið. T.d. um laxa og silunga. Og jafnvel um bleikjur. Ég hef líka stundum hugleitt að fara á sjóstöng. Hvernig væri það? Er einhver til? Ufsinn ku vera geysilega sprækur á færi. Enda stundum kallaður sjólax. Geysilega góður reyktur og og þannig niðursoðinn í olíu.Því miður áratugir síðan ég hef smakkað hann þannig. Við skulum bara drífa okkur í sumar. Eftir ríflega 16% kauphækkun í gær er undirritaður svo léttstígur að það jaðrar við flug. Aldrei að vita nema hann ég bjóði valinkunnum heiðursmönnum á sjóstöng í sumar. Og ef veiðin verður í samræmi við snilld veiðimanna má bara leggja hluta aflans inn á næsta fiskmarkað. Einkennilegt þetta veiðieðli mannsins. Jafnsterkt og hitt eðlið. Sbr. " þegar Adams eðli, innra kennir sín" Og reyndar miklu meira líf í veiðieðlinu hjá gömlum mönnum eins og undirrituðum. Vorið og sumarið eru svo sannarlega tilhlökkunarefni. Kærar kveðjur til allra bloggara frá ykkar einlægum Hösmaga sem dreymir um 40 punda ufsa.

Comments:
Til er ég!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online