Sunday, February 27, 2005

 

Lítill strákur.

Undirritaður verður 61 árs á laugardaginn kemur. Finnst það nú ekki vera neitt voðalegt. Heilsan sérlega góð. Enginn er eldri en hann vill vera ef góð heilsa er fyrir hendi.Ég er búinn að vera eins og lítill pjakkur síðan á þriðjudaginn. Eignaðist þá nýtt leikfang. Mjög gagnlegt til ferðalaga. Ég fékk sem sé gráan belg fyrir rauðan. Lét minn eðalvagn og fékk annan Cherokee í staðinn. Bíladellan er líklega í genunum. Svona var Langi-Sveinn. Var með delluna frá 1912 til dauðadags 1992.Nýi vagninn er alveg sérstakur gullvagn. Brynjaður 8 strokka V mótor, 235 hestöfl, með sjálfskiptingu, háu og lágu drifi og flest rafknúið. Svo uppgötvaði ég í morgun að það er áttaviti í farartækinu. Gott þegar komið er til fjalla. Sýnir höfuðáttir og milliáttir. Þá sá ég það líka að það var 25 stiga hiti í bílskúrnum en 0° úti. Stafrænn hitamælir. Pláss fyrir 4 farþega( mega vera nokkuð gildvaxnir) og svo er mikið rými fyrir laxa og silunga að auki. Það er líka eins og gott, því mér segir svo hugur að ég muni róóóótonum upp í sumar. Ef veður verður ljúft á afmælisdaginn minn væri kjörið að halda til veiða í Tangavatni. Með flugustöngina meðferðis. Og svo koma páskarnir þegar líður á mars. Hygg gott til glóðarinnar ef vel viðrar. Það kom mér ekki á óvart að nýi vagninn þarf minna bensín en sá eldri. Svo er mjög gott ráð til eldsneytissparnaðar að setja hænuegg undir bensíngjöfina. Eggið má alls ekki brjóta og því verður að stíga varlega á pinnann. Líklega það sem nú er kallað vistvænn akstur. Keyra á jöfnum hraða og forðast snöggar inngjafir. En því er ekki að leyna að það er voða skemmtilegt að stíga snöggt á bensíngjöfina, sérstaklega á leiðinni upp Kambana. Ég bókstaflega varð að prófa það í gær á leið í afmæli Egils sterka. Vagninn var eldfljótur upp. En þar sem svartbakurinn liggur sífellt í leyni þá hægði ég ferðina strax aftur. Það kostar mann dýrt að vera nappaður. Og refsipunkta í ökuferilsskrána.Er með einn eftir að hafa verið nappaður 2002. Kostaði 20.000 og peningunum hefði verið betur varið í aðra hluti. En þessi punktur hverfur í ágúst ef ég haga mér skikkanlega. Sem ég og geri nú flesta daga. Fæ sem sagt uppreisn æru. Nafn mitt hreinsað af þessum voðalega glæp sem ég framdi í ágúst 2002. Eftir skemmtilega ferð með skáldinu mínu í Dómadalsvatn.
Ég sé að frú Hatseput er komin á fullt skrið í bloggiðjunni. Held að MS ætti að taka móður sína sér til fyrirmyndar. Og föðurinn einnig. Minntist líka á þessa ágætu iðju við einkadótturina í gær. Enginn getur með sanni borið við tímaskorti. Það sést best á siggabloggi og sölvabloggi. Gaman hvað þessir önnumköfnu námsmenn gefa sér tíma til að ausa úr viskubrunninum .Á morgun heimsæki ég Borgarfjörðinn. Hlakka til þessarar skemmtireisu á fullum launum. Unaðslegt að geta staðið upp frá tölvunni og látið sig hverfa út á landsbyggðina. Tekið að birta verulega og brátt mun hinn höfugi ilmur landsins leika um vitin. Dásamlegasti árstíminn nálgast óðfluga. Bestu kveðjur frá ykkar einlægum Hösmaga.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online