Sunday, February 01, 2009

 

Pólís,Pólis, Bauka Jón og jarðarför.

Febrúar byrjar með frosti og snjópeðringi. Síðasti dagur janúar var ægifagur. Hitinn yfir frostmarki, glampandi sól og logn að auki. Ég lauk við söguna af Bauka Jóni. Sögu frá sautjándu öld eftir sagnfræðinginn Jón Þ. Þór. Fróðleg og skemmtileg saga af Jóni Vigfússyni, sem bæði var sýslumaður og biskup. Þegar hann var dæmdur frá embætti sem sýslumaður borgfirðinga hélt hann til Kaupmannahafnar og þar bætti einvaldskóngurinn upp embættismissinn og gerði hann að varabiskup. Hann hélt heimleiðis og beið svo bara eftir að Hólabiskip þóknaðist að gefa upp öndina.Það hitnaði líka verulega undir honum í því embætti. Hann dó úr landfararsótt áður en mótdrægismenn hans gætu komið honum frá embætti. Þeir sektuðu hinsvegar líkið frekar en ekki neitt. Eftir að hafa lokið við Bauka Jón tóku Sjöwall og Wahlöö við á ný. Pólís, pólís, pungurinn frýs með pylsu og ís. Þá á ég bara 2 síðustu bækurnar eftir.
Ég fylgdi svo gamalli konu til grafar eftir hádegið. Hún hét Þóra Magnúsdóttir og varð 88 ára að aldri. Það hlýtur að vera gott að láta jarða sig í svona fallegu veðri. Þóra var einn af skjólstæðingum mínum í lagalegum efnum. Hún var löngu búinn að leggja sitt af mörkum til þjóðfélagsins og hefur örugglega dáið sátt.
Við Kimi höfðum það síðan gott hér heima það sem eftir lifði dagsins. Spaugstofan nokkuð góð í gærkvöldi. Evróvision áþjánin að henni lokinni. Ég fylgdist með svona einu sinni. Meðan kosið er hefur hrúturinn Hreinn völdin. Magnþrunginn karakter sem ég hef ákaflega gaman af og læt ekki framhjá mér fara. Það var allt vaðandi í geimverum í þessum þætti. Ég segi ykkur bráðum meira af alíensunum. Þær eru ekki alveg af baki dottnar gagnvart undirrituðum. Gerðu mér óþverragrikk fyrir nokkrum dögum.
Nú fer silfur Egils að byrja. Yfirleitt ágætur þáttur sem ég reyni að missa ekki af. Svo fáum við líklega nýja ríkisstjórn þegar á daginn líður. Kosningar verða svo 25. apríl og vonandi verða þá algjör þáttaskil. Hagsmunir almennings teknir fram yfir gróðahyggju nokkura vesalinga. Vesalinganna, sem eiga mesta sök á hvernig fyrir okkur er nú komið. Glæpahyskis sem bæst væri að úthýsa úr mannlegu samfélagi.
Eftir speltbrauð með reyktum Ölfusárlaxi er gott að fá sér einn vindil með silfrinu. Við Dýri sendum okkar bestu kveðjur til allra vina, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ekki er laust við að maður sé orðinn æði spenntur yfir grikkjum þeirra alíensa. Eiga þeir eitthvað skilt við undur spilastokksins og hans óskilgreinanda hvarf í Laufhaga 14 hérna í denn?
 
Hafa kvikindin ekki líka verið að fikta við kveikjara og lykla í eigu Hösmaga? Asskotans alíensar.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online