Monday, February 23, 2009

 

Drungi.

Snjókoma morgunsins er að verða að slyddu og slyddan verður brátt að rigningu. Hálf drungalegt veður á öðrum degi Góu. Ég renndi í Garðabæ í gær. Fjölmenni í afmæli Egils sterka og miklar kræsingar í boði að venju. Kom við hjá systur minni yngri á Kársnesbraut. Þar var bógsteik á borðum. Léttbrúnaðar smákartöflur og annað meðlæti. Ég stóð á blístri við heimkomuna. Verð líklega að gæta mín á að fá ekki velmegunarístru í kreppunni. Hef þó ekki miklar áhyggjur og treð bara í mig því sem mér gott þykir. Það vill mér til að vera á öfugu róli við svo marga aðra. Sífelld barátta við að halda holdum meðan þeirra barátta er við spikpúkann. Við Kimi erum báðir fremur grannir. Spengilegir og að sjálfsögðu fjallmyndarlegir. Hann vingsar nú skotti sínu yfir lyklaborðið og það er ekki til bóta við pistlaskrif.
Mig klæjar orðið í puttana eftir að byrja á framtölunum. Það verður allt komið á fullt í næstu viku.Netframtalið opnar á sunnudaginn og ég mun byrja á sjálfum mér. Létt verk og löðurmannlegt. Þarf ekki einu sinni að telja köttinn fram. Hann er mér þó heilmikils virði. Fagnaði mér ógurlega í gærkvöldi við heimkomuna úr sunnudagsreisunni. Það verður væntanlega nóg að gera í marsmánuði. Svo kemur apríl með páska og þá er víst að herconinn verður virkjaður. Við Maggi eigum dag inni við Tangavatn. Ég hringi í frúna og fæ vitneskju um hvenær sleppt verður í vatnið. Næstu mánuðir eru tilhlökkunarefni að venju. Birta, fiskur og útivera. Nóttlaus veröld og ég gleymi íhaldinu, framsókn og öðrum leiðindafyrirbærum. Verk þessara flokka ætla ég ekki að fyrirgefa. Bara allsekki. Við rauðliðarnir sendum bestu kveðjur til vina okkar. Allra sem okkur finnst vænt um. Og þeir eru þónokkrir. Ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online