Thursday, February 19, 2009

 

Kalt regn.

Dimmviðri og regnið er blautt og kalt. Smýgur innað beini. Gott að koma aftur inní hlýjuna og ekki spilltu móttökurnar. Kominn föstudagur og enn ein helgin að skella á.Gangrimlahjólið herðir stöðugt á sér. Góan að byrja og aðeins mánuður í vorjafndægur. Hinn þungi niður tímans er samur við sig. Eilífðin blívur. Allt er þó afstætt. Hinn rómaði 3ja stanga dagur er t.d. ótrúlega fljótur að líða. En stundum er eins og tíminn sé við það að stöðvast. Vikudvöl á gjörgæsludeildinni í desember 1985 var eins og heilt ár. Þar var ys og þys. Ekki út af engu heldur vegna þess að þar var mikið af veiku fólki. Það var stór klukka á einum veggnum. Ég horfði mikið á þessa klukku þegar ég var með rænu. Eitt kvöldið leit ég á þessa klukku tilveru minnar. Hún var nákvæmlega 9 að kvöldi. Ég ákvað að kúra mig niður og sofa sem lengst. Það tókst og ég sveif inní drauma mína og dvaldi þar lengi. Þegar ég komst til meðvitundar aftur voru liðnar 2 mínútur. Stuttur tími en heil eilífð fyrir mig. Það er stundum gott að líta aftur fyrir sig. Án þess að velta sér upp úr fortíðinni. Oftast hefur lífið verið mér ljúft og gjöfult. Hið neikvæða er að mestu gleymt. Hið ljúfa og góða stendur eftir. Í hinni endalausu bylgjuhreyfingu er útsýnið eftirminnilegra af öldutoppunum en úr dalnum á milli þeirra. Ég hlakka enn til komandi daga. Þó febrúarregnið sé kalt kemur sólin upp aftur. Vorið skilar sér að venju. Þessi dásamlegi tími þegar ilmurinn af landinu fyllir vitin. Fiskurinn fer að vaka og Himbriminn kætist. Þá víkja vond stjórnvöld og þjófahyski á braut.

Þottavélin hamast með úlpurnar mínar í maganum. Raikonen löngu hættur að kippa sér upp við svoleiðis smámuni. Jafnvel ryksugan er orðin hættulaus. Fyrir lítið dýr er nóg að fá mat, vatn og stroku annað slagið.
Í dag ætla ég að taka áhættu. Gerast áhættufjárfestir. Kaupa mér nýjan Zippó. Ég ætla að kreista hann í greip minni dag og nótt. Ég veit að það hlakkar í ódóunum. Ég hef það samt á tilfinningunni að hið góða muni standa með mér. Ég geti tekið gleði mína að fullu á ný. Kvikindin verði úti í kuldanum. Snúi sér að Finni, Ólafi, Davíð og draugskrattanum. Álgerði, Geir og véfréttinni frá Bifröst. Ég ætla samt að vera á varðbergi. Alíensarnir er lúmskir og liggja stundum á fleti fyrir þar sem maður síst á von á þeim. Þvottahúsrokkurinn er nú þagnaður og tími til að hengja upp. Kaffið uppurið og Kimi sofnaður aftur. Yndiskveðjur frá okkur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þar sem Hösmagi er greinilega með hugann við liðna tíð þá vil ég minna á að Laugarbakkadrellinn er enn á lífi. Þannig að þar er eitt ólokið verk sem þarf að klára. Koma svo, berjast.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online