Monday, February 23, 2009

 

Djöfullinn sjálfur.

Í pistlinum á föstudagsmorguninn var ég að tala um fjárfestingu í nýjum Zippó. Þegar ég kom í búðina til Boga Karls voru bara til 3. Einhvernveginn leist mér ekki á neinn. Einn var upphleyptur einhverju krumsprangi, annar málaður gulur og gott ef ekki blár að auki og sá þriðji með viðbættri plötu öðrumegin. Þeir höfðuðu ekki til míns alþekkta fegurðarskyns. Alíensarnar hafa orðið uppvægir og tóku heldur betur til sinna ráða. Ég keypti mér andskoti góða húfu í vetur. Með loðfóðri. Hlýja og notalega. Það hefur alls ekki veitt af slíkum þarfahlut í umhleypingum vetrarins. Ég fór út með húfuna á laugardaginn. Ég var líka með hana síðdegis. Við Gréta skruppum niður á Eyrarbakka að kíkja á brimið. Ég drakk svo kaffi hjá henni þegar við komum til baka. Í gærmorgun greip ég í tómt á forstofusnaganum. Varð að láta gamla ullarhúfu nægja.Ágætt pottlok en ullin ertir ennið. Loðhúfan var ekki í Lancernum né í bílskúrnum. Ég hringdi í Grétu rétt áðan. Engin húfa. Húfan er semsagt HORFIN. Það þarf ekki frekari vitna við. Ódóin eru enn á sveimi í kringum mig. Þau ættu sannarlega ekki á góðu von næði ég til þeirra. Sennilega komist inní forstofuna og eldsnöggt gripið þetta góða höfuðskjól. Ég er alveg bálillur. Það er kreppa. Hver króna er dýrmæt í dag. Nú verð ég að kaupa mér aðra húfu. Reima hana svo vandlega á hausinn áður en ég geng til náða á kvöldin. Þetta fer að verða skrautlegt í svefnherberginu. Ég með húfu, bleika dulan undir koddanum og herconinn á milli okkar Dýra. Af hverju ráðast þessi kvikindi ekki á Árna Matt með allar millurnar? Árna æruprýdda nýúthreinsaðan frá Póllandi? Ekki hef ég neitt til saka unnið annað en að vera til. Ég er bæði reiður og undrandi. Þessi ódó virðast hafa einstakt yndi af að skaprauna mér. Ég ákalla nú hin góðu öfl mér til verndar og fulltingis. Vona að þau slái um mig skjaldborg og reki þessi kvikindi til síns heima. Það er ekki góð líðan að vera hugsandi um hvar þau höggvi næst. Nú fer ég á stúfana í húfuleit. Bestu kveðjur aftur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Ljótt er að heyra þetta. Ekki ætla ég nú að leggja til að dulan góða verði saumuð saman í húfu enda heilög sem slík og eflaust ekki hlý heldur, þótt stórbrotin sé hún í eiginleikum sínum á öðrum sviðum.

Af sjálfum mér er það að frétta að ég sný til Skotlands á miðvikudaginn, farinn að hlakka til að koma heim í kotið til minnar góðu ektafrúar. Við heyrumst kannski símleiðis á fimmtudag, föstudag. Ég slæ á þráðinn! Bestu kveðjur, Sölvi Björn
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online