Monday, February 16, 2009

 

Þokuloft.

Það er þokuloft og sá sem setti snjóinn á svalirnar mínar hefur nú fjarlægt hann. Kimi er ánægður með það og viðrar þar skott sitt. Þetta er merkisdagur því Hæstiréttur er 90 ára í dag. Ég minnist dagsins því Orator, félag laganema, gerði þetta að sínum hátíðardegi. Okkur var gjarnan boðið eitthvað þennan dag. Margir fengu sér aðeins í ranann og svo var oftast ball að kvöldi. Þetta var ágæt tilbreyting frá hversdagsleikanum. Stundum var ég að vinna á orkustofnun og slapp við gleðskap og tilheyrandi timburmenn.
Nú hef ég lokið við æviminningar Þráins Bertelssonar. Æskusöguna sem lýkur við stúdentsprófið og svo hina sem spannar næstu 10 árin. Fyrri bókin er frábær lesning. Einlæg og heilmikil lýrik í henni. Kannski finn ég samkennd með Þráni í mörgu sem hann segir frá. Við erum fæddir sama árið og ég kannast við mikinn fjölda fólks í bókinni. Hann ólst upp hjá föður sínum sem honum fannst afar vænt um. Móðir hans var sjúklingur og vistuð á Kleppi. Hann saknaði hennar mjög. Seinni bókin er ágæt líka en höfðaði minna til mín. Kannski skrifar hann framhald síðar. Lipur penni og húmoristi ágætur.
Enn er ég að kveikja mér í Bagatello. Blái plastkveikjarinn dugar svo sem, en söknuðurinn er enn sár eftir óþokkabragð geimverunnar. Mig langar í annan Zippó en þori varla að kaupa hann. Örugglega fleiri ódó á höttunum eftir slíku verkfæri. Bleika dulan góða og Herconinn eru þó enn í mínum höndum. En þetta eru þrælslæg kvikindi og til alls vís. Skaprauna fátækum alþýðumanni með grikkjum sínum. Ég magna þau á seðlabankastjórann. Útrásarvíkingana og forsetann. Íhaldið eins og það leggur sig. Það myndi líka bara gleðja mig ef þau hrekktu Finn Ingólfsson og Ólaf í Samskipum.
Ég skrapp með Herði uppí Grímsnes á laugardaginn. Óðalið kúrði undir Búrfellinu. Eitthvað ljúfsárt við að koma þarna uppeftir. Ljúft að hugsa um draumana um kærleikskotið og hin andlegu sköpunarverk. Lyngið og bláberin. Sárt vegna glæpahyskisins sem nánast hefur komið í veg fyrir að draumarnir geti rætst. Það væri verðugt verkefni fyrir alíensana að koma votti af samvisku í hausinn á hyskinu. Þá væri smávon til að þeir fengju mína fyrirgefningu.
Nú er hugur minn í Edinborg. Ég veit reyndar ekki hvort skáldið er komið aftur úr svíaríki til heitkonu sinnar. Hugurinn hvarflar til jóla 2004. Þegar skáldið setti upp þessa bloggsíðu og fyrsti pistillinn fór í loftið. Síðan hef ég bætt 599 við að þessum meðtöldum. Það er eiginlega hálfgildings afmæli. Rúm 4 ár liðin svo pistill nr. 1313 gæti sem best orðið að veruleika í kringum sjötugsafmælið. Þrátt fyrir allt er enn gaman að þessu. Og fleiru. Ég er hlaðinn orku og æðruleysi. Hlakka til vorsins eins og fyrr. Við Kimi, rauðliðarnir galvösku, sendum vinum okkar bestu kveðjur. Spes kveðja til litla sólargeislans, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þrælsleg eru kvikindin mörg og sum vilja ennþá kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Það eru skrítnustu alíensurnar, í mínum huga. Bestu kveðjur frá Visby, þar sem ég verð í viku enn, Sössi Bjössi
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online