Tuesday, February 24, 2009

 

Meira af húfum.

Ég fór í Húsasmiðjuna á föstudaginn en þar var engin góð húfa til sölu. Ég hitti Viktor Óskarsson stórveiðimann sem vinnur þarna og sagði honum mínar farir ekki sléttar. Geimvera hefði stolið minni heittelskuðu húfu. Viktor gaf mér húfu með merki Húsasmiðjunnar. Svona frekar en ekki neitt. Síðan fór ég í Nótatún en gekk þaðan bónleiður. Þegar ég var sestur uppí Lancerinn hringdi síminn. Það var Gréta. Mín kæra húfa var fundin. Franski rennilásinn hafði krækst í ponsjóið hennar. Þetta var sem sagt létt grín hjá geimverunni. Ég varð alshugar feginn og það var virkilega notalegt að setja þetta blessaða höfuðskjól upp aftur. Ég er nýkominn inn úr gjólunni og það var gott að skýla eyrunum fyrir Kára. Ég vaknaði klukkan eitt í nótt. Mig hafði dreymt að ég hefði verið dæmdur til dauða. Ásamt mörgum öðrum. Alveg voðalegt mál. Það var búið að taka nokkra af og röðin var komin að mér. Ég vildi alls ekki sætta mig við þetta. Réðst á einn djöflamerginn og í því að ég var að ganga frá honum hrökk ég upp. Ég treysti mér ekki til að sofna aftur. Hitaði mér kaffi, kíkti á netið og lyfti teningunum nokkrum sinnum. Sofnaði svo aftur út frá herra Pip.
Yfirnagarinn var í kastljósinu í gærkvöldi. Oft hefur mér blöskrað þessi maður. Ræða hans var eitt samfellt lof um hann sjálfan. Hrakyrti spyrilinn og alla þá sem hafa vogað sér að gagnrýna hann. Þó ég sé lítt menntaður í sálfræði og geðsýki hugsaði ég mitt. Þessi maður er bæði með mikilmennskubrjálæði og ofsóknaræði á háu stigi. Dónaskapurinn er ekki nýr af nálinni. Dólgshátturinn alkunnur. Hvenær skyldi þessari martröð ljúka? Vonandi sem allra fyrst. Tapsár framsóknarmaður hefur reyndar lengt veru þessarar martraðar í seðlabankanum. Það er að koma í ljós það sem ég óttaðist. Ríkisstjórnin er í gíslingu framsóknarflokksins. Það er vont hlutskipti. Ég vona að við berum gæfu til að kjósa rétt í apríl. VG og SF fái hreinan meirihluta. Stærsta ágreiningsefni þessara flokka, aðild að ESB, er auðvelt að leysa. Láta þjóðina kjósa um hvort við sækjum um aðild eða ekki og una niðurstöðunni. Það mun verða nokkur endurnýjun í þingliði þessara flokka. Ég vona að skynsemin sigri. Íhaldið verði útí kuldanum og framsókn á ekkert gott skilið. Það á að draga glæpahyskið fyrir rétt. Freista þess með öllum ráðum að finna það þýfi sem enn kann að vera til. Réttlætiskennd okkar krefst þess. Við bíðum og sjáum hvað gerist í kosningunum.
Það styttist í mars. Hann verður fljótur að líða eins og janúar og febrúar. Veturinn bærilegur og vorið nálgast óðfluga. Hugurinn þegar farinn að leita til bakkanna. Við Dýri biðjum að heilsa, ykkar Hösmagi.

Comments:
Bestu kveðjur sömuleiðis frá Visby. Flýg til Skotlands í kvöld, heim í heiðardalinn eins og þar stendur. Gott að húfan kom í leitirnar. Ódóin eru þá ekki alveg ill eftir allt saman. Hasta luego! Sössi
 
Heyrðu, sástu grænu þrumuna sem lenti í þjófa höndum í Reykjavík? Það er vonandi ekki x1313? Slíkt bæri heldur merki um ofgnótt af brellum þeirra ódóa.
 
Hin eina og sanna græna þruma er á stalli sínum. Nýtjöruþvegin og stífbónuð. Og ódóin hafa hægt um sig í bili. Kannski pínulítið geimryk á stöku stað hér innanhúss. Bestu kveðjur til litlu fjölskyldunnar.
 
Fólk vill blogg frá Hösmaga!
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online