Friday, February 13, 2009

 

Gas, gas, gas.

Margir muna eftir gasmanninum við Rauðavatn í fyrra. Spreyjandi gasi á saklausa borgara. Mér datt þessi geðsjúklingur í hug þegar ég las frétt á mbl.is um að danir hugleiddu nú að leggja gasskatt á danska kúabændur. Með því að ropa og reka við gefa beljurnar frá sér einhver ósköp af metangasi. Og svínin líka. Mér finnst þetta nú hálf spaugilegt. Bóndi hér í nágrenninu hefur reyndar virkjað beljurnar sínar. Orðin gasbóndi og notar það á bíla og traktora. Frábært framtak. Kannski er þetta þjóðráð á krepputímum. Kannski gæti ég virkjað köttinn minn. Og sjálfan mig að auki. Framleitt gas til að spara rafmagn. Lifa á þrumara, appelsínum, þurrkuðum perum og baunum. Þetta er líklega léleg hugmynd. Of lítið til að vinnsla borgi sig. En allt í lagi að huga að sparnaðarleiðum. Svokölluð dagvara hefur hækkað um 32% á einu ári. Það er ekki lítill útlátaauki fyrir okkur. U.þ.b. 15.000 manns án atvinnu. Og litlu íhaldsstrákarnir á þingi, einkum Sigurður Kári og Birgir Ármannsson, segja að það þýði ekkert að "klína" þessu á sjálfstæðisflokkinn. Þeir djöflast bara á ríkisstjórn sem aðeins hefur setið í nokkra daga. Þyrla upp endalausu moldviðri til að reyna að fela afglöp síðustu 18 ára. Afglöp, sem komið hafa þorra almennings á vonarvöl. Nú þurfum við nánast leyfi frá alþjóða gjaldeyrissjóðnum til að fá að reka við. Kannski kemur krafa frá sjóðnum að gasið verði virkjað. Ég hef stundum talað hér um hvað trúin hefur verið mannkyninu skaðleg. Í nærri 2 áratugi hafa stjórnvöld trúað á frjálshyggju og hin óheftu markaðslögmál. Allt eftirlit af hinu vonda. Markaðurinn sjálfur átti að sjá um það. Og árangurinn er þjóðargjaldþrot. Ég er nú ekki að óska eftir skömmtunaröldinni aftur. Brauðmiðum og leyfi frá fjárhagsráði til að kaupa einn poka af sementi. Hinsvegar æpa íhaldsmennir á þá sem leyfa sér að gagnrýna flokkinn þeirra. Þetta er alþekkt aðferð. Í nýliðnu morðæði ísraelsmanna á Gaza voru þeir sem leyfðu sér að gagnrýna þá kallaðir gyðingahatarar. Því miður munu alltof margir kjósa íhaldið í næstu kosningum. Vegna trúar sinnar á flokkinn. Flokkinn sem brást svo herfilega. Þrælslundin er sérkennilegt fyrirbæri. Kossarnir á vönd kvalaranna eru undirrituðum óskiljanlegir. Á 18 árum hefur íhaldið plantað sínu fólki allsstaðar í stjórnsýsluna. Birgir Ármannsson fimbulfambaði um tölvupóst frá gjaldeyrissjóðnum löngu áður en forsætisráðherra var kunnugt um hann. Ástæðan er öllum ljós. Hann fékk meldingu frá einum trójuhestinum í ráðuneytinu. Og var nógu vitlaus til að hlaupa með hana í ræðustól í þinginu. Við skulum bara hreinsa til.Látum andskotans íhaldið gaspra sem hæst og líkja eðlilegum mannabreytingum við hreinsanir Stalíns. Þeir vita miklu betur. Þeir vilja bara ekki sætta sig við að þeirra tími er liðinn. Og geta ekki sætt sig við að stefna þeirra hefur beðið algjört skipbrot. Þeir eiga ekki skilið eitt einasta atkvæði frá okkur lýðnum. Punktum og basta.
Nú er hitinn að nálgast 5 gráður. Væta og mikið krap. Helgi framundan og ég þarf að taka mig á í heimilisstörfunum. Ryk og skúm út um allt. Nú væri gott að hafa vélmenni til aðstoðar. En gamla lagið er ágætt líka. Bara að byrja og þá verður eftirleikurinn auðveldur. Kimi skrapp aðeins út að viðra sig. Lagstur aftur eins og Ólafur Kárason forðum. Bestu kveðjur frá báðum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Gaman að fylgjast með því hvað Hösmagi er duglegur að blogga þessa dagana. Og ég segi: Meira svona! Ekki verður þetta víst sagt um aðra meðlimi fjölskyldunnar, svo mikið er víst, svo þú heldur uppi heiðri okkar á þessum vígstöðvum. Bestu kveðjur til kattar og gráskeggs nokkurs á Selfossi, Sössi Bjössi
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online