Saturday, January 24, 2009

 

Þorri....

hófst í gær. Lætin í veðrinu sneyddu alveg framhjá Selfossi. Hér er nú logn og 5 stiga hiti. Varla hægt að kvarta yfir slíku veðri um hávetur. Í dag eru nákvæmlega 3 ár síðan ég eignaðist grænu þrumuna. Ingibjörg systir mín verður löggilt gamalmenni á þessum degi. Sendi henni bestu kveðjur mínar með von um að grásleppan sem ég færði henni í vikunni hafi bragðast vel.Heilmikil tíðindi úr pólitíkinni í gær. Það er áfangasigur að allir flokkarnir sammælist um nýjar þingkosningar. Nú verður tækifæri á að gefa íhaldinu langt frí. Það mun þó taka mörg ár að snúa dæminu við. Margt af því sem þessi flokkur hefur gert okkur, með dyggri aðstoð framsóknarflokksins, verður aldrei bætt. Arfur draugsins og yfirnagarans hvílir eins og óhugnanleg mara yfir öllu hér. Fyrir svona venjulega meðaljóna eins og Hösmaga er lítið annað að gera en bíða og vona hið besta. Nota atkvæðisréttinn rétt svo hægt sé að líta til baka með góðri samvisku. Vona að hnípin þjóð í vanda geti horfst í augu við framtíðina með bjartari augum en áður. Landið er enn á sínum stað. Hér höfum við þraukað í þúsund ár og munum gera áfram. Mig þyrstir ekki í blóð heldur rættlæti. Þó það væri ekki nema snefill af því. Ég er algjörlega ósammála að ekki eigi að leita sökudólga. Ekki eigi að "persónugera" hlutina. Það er hér slatti af mönnum sem eiga heima undir lás og slá. Enn hef ég von um að svo verði. Þessir glæponar vita ekki hvað samviska er. Þeir eru enn að. Og munu verða meðan hægt er. Óstjórn og eftirlitsleysi stjórnvalda síðustu ára hefur orðið til þess að nokkur þúsund milljarðar hafa horfið. Sumt af þessu fé er þó til enn. Falið erlendis. Við skulum leita þess og gera það upptækt. Við þurfum ekki nýtt lýðveldi eða nýja stjórnarskrá. Það nægir að hreinsa ærlega til. Taka upp nýja stefnu og ný gildi. Sigurður Líndal, minn gamli lærifaðir í lagadeildinni sagði einu sinni í fyrirlestri að verstu einræðisríkin væru með flottustu stjórnarskrár veraldar. Þar voru mannréttindi varin í bak og fyrir. Bara marklaus plögg sem voru fólkinu miklu verri en engin.
Aðalfundur stangveiðifélagsins er á föstudaginn kemur. Leiðir hugann að komandi vori og sumri.Þó hart sé á dalnum nú um stundir verða einhver ráð til þess að strengja línur í sumar. Annars væri bara allt ómögulegt. Herconinn bíður átaka. Það er einkar ljúft að hugsa til þess. Við Dýri erum nokkuð slakir. Hann þó enn slakari. Steinsofandi hér á móti mér. Gamli hægindastóllin sem hefur svo lengi verið klóskerpa fór út í bílskúr í gær. Þar var annar samskonar eðalstóll. Dugar örugglega nokkur ár þó hann eigi harðar árásir í vændum. Ég ætla á mótmælafund klukkan eitt. Hann verður friðsamur og fyrst og fremst táknrænn. Bestu kveðjur frá okkur Kimi. ykkar Hösmagi.

Comments:
Nú eru afsagnirnar að hefjast! Eða er það kannski allt upp á punt? Kosningar í vor vita að minnsta kosti á breytingar, allt útlit fyrir að fyrsta vinstri stjórnin í næstum 20 ár verði að veruleika. Mér skilst að það sé afar slæmt fyrir "erlenda fjárfesta"...
 
Það er nú ansi ódýrt trikk að segja af sér þegar stjórnin er fallin hvort eð er. Björvin er bara að treysta stöðu sína í næsta prófkjöri. Sennilega búinn að panta snitturnar og bjórinn eins og síðast. Það jákvæða er að nú verður hreinsað til í FMR. Eða við skulum allavega vona það. Svo þurfa ISG og Steingrímur að hætta að hnýta hvort í annað. Þá er von um góða vinstrisinnaða umbótastjórn.
 
Alveg sammála. Ef einhvern tíma hefur verið ráð að leggja flokkspólitík á hilluna fyrir þjóðarheill, þá er sá tími núna. Sameinuð vinstri stjórn sem hefur það að aðalmarkmiði að stýra þjóðinni á flatlendið og fjölskyldunum í örugga höfn, koma í veg fyrir algjöra óðaverðbólgu, a.m.k. svo að verðbólgan geri ekki alla íslenska íbúðaeigendur gjaldþrota, er að mínu mati málið. Sama stjórn þarf auðvitað að grafa upp drulluna, dæma bófana og friða þjóð sem þráir réttlæti. Og koma í veg fyrir að við lendum utan evrópska hagkerfisins. Þetta á að geta farið vel saman. Heimta eitthvað af þýfinu í þjóðarkassann og færa svo þessa kapítalísku stefnu sem við búum við nær grasrótinni, þar sem góðir hlutir geta gerst fyrir minni pening og minni áhættu, en meiri langtímagróða. Ég er ekki svo mikill kommi að ég vilji leggja niður kerfið, en það þarf að setja reglur til að hefta framgang græðgi og yfirgangs. Bara nokkur prómill sitja eftir með auð þessara 10 ára nýsprungnu bubblu og öll þeirra prómilla þannig þenkjandi að markaðurinn sé frumskógur þar sem samúð er heimskuleg, því ef þú tryggir þig ekki núna ertu dauður fáviti. Það er þessi heimskulegi ótti sem við þurfum að losa okkur við og hefta framgang þeirra sem virkja hann innra með sér og notfæra sér gagnvart öðrum. Þetta er bara einföld kerfisvilla. Karlsvínið þarf að víkja og skammast sín. Eða má ekki með sanni segja að gráðugir alfakarlar hafi rústað öllu sem hægt er að rústa fyrir samviskusömu fólki með hversdagslegan metnað og heilbrigðar vonir, þessi ca. tíu-tólf ár sem mín kynslóð hefur verið fullorðin?
 
Þetta komment mætti verða að góðri grein í mogganum.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online