Sunday, January 11, 2009

 

Ónenna.

Ég er svo latur í dag að ég nenni varla að draga andann. Kötturinn jafnvel enn verri og liggur alveg flatur í dyngju sinni. Ég horfði þó á silfur Egils og fékk mér flís af reyktu folaldakjöti sem ég sauð í gær. Rúmið er að verða aðaldvalarstaður undirritaðs nú í seinni tíð. Ég les og móki á milli. Bíð eftir að öll vandamál leysist af sjálfu sér. Það er nú varla vænlegt til árangurs. Kannski reyni ég bara að hefja nýtt líf í fyrramálið. Láta verkin tala eins og sumir stjórnmálamenn orða það. Það er þó ekki auðvelt í þessu landi eins og ástandið er. Afar vond stjórnvöld og stjórnsýslan öll morkin í gegn. Hagar sem eru í eigu Baugs hafa nýverið keypt allar BT verslanirnar. Þær voru staðgreiddar með láni frá Elínu Sigúsdóttur sem er núverandi bankastjóri nýja Landsbankans. Fituhlussunni sem var hægri hönd Sigurjóns í gamla bankanum. Fékk góða aðstoð frá Trygga Jónssyni fyrrum aðstoðarforstjóra Baugs. Hann er dæmdur glæpamaður. Þetta er sama siðferðið og áður. Það er alveg vonlaust að breytingar verði í þessum efnum meðan núverandi stjórnvöld sitja. ISG lýsti yfir fullu trausti á Árna Matt í kastljósi nú í vikunni. Mann, sem þverbrotið hefur stjórnsýlulögin. Hann var nýlega sæmdur titlinum skítseyði ársins. Enginn ráðherranna er tilbúin til að axla minnstu ábyrgð á því hvernig komið er. Það eitt og sér er næg ástæða til að krefjast kosninga. Það eru þó litlar líkur á að svo verði í bráð. SF er ekki skárri en íhaldið í sjálfbirgingshættinum og valdasýkinni. Ekki að furða þó margir landsmenn séu daprir og vonlitlir. Þessa dagana er verið að leggja heilbrigðiskerfið í rústir. Það er stefnt á að einkavæða það allt á mettíma. Því stjórnar einn af Vökustaurum íhaldsins. En það heyrist heldur ekki stuna né hósti frá SF. Þessum íhaldsmanni er líka treyst til allra góðra verka. Ef SF stígur ekki á bremsurnar mun fylgi flokksins hrynja. Það er reyndar farið að dala nú þegar. Þetta er bara allt veruleg andstyggð. Framkvæmdavaldið hefur sölsað undir sig öll völd í landinu. Þingmeirihluti íhaldsins og SF fær heilu lagabálkana tilbúna til samþykkta. Það þarf ekki að ræða þá því ráðherrarnir hugsa fyrir öllu. Mín von er þó sú að þetti gervilýðræði muni ekki vara til lengdar. Þjóðin rísi upp og komi þessari óstjórn útí hafsauga. Eða á uppeldisstofnun til endurhæfingar.

Það hefur kólnað og Ingólfsfjall að mestu hvítt. Spáð verulegu frosti næstu daga. Það gæti kostað enn meiri sængurlegu. Ég lauk við síðustu bókina af bókasafninu í dag. Kem þar aftur við á morgun. Ætla m.a. að ná mér í Berlínaraspirnar. Ég hugsa ekki um vond stjórnvöld þegar ég hef sökkt mér niður í lesturinn. Þennan samviskusnauða kvikfénað ógæfunnar sem ekki þekkir sinn vitjunartíma og trónir á skítahaug sinna eigin illverka. Og vinir þessa fénaðar eru kátir. Hvað annað? Með kveðju frá okkur letihaugunum, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online