Monday, January 05, 2009

 

13ándi.

Siðasti dagur jóla runninn upp.Þau hafa verið ágæt og liðið hratt. Við Magnús gerðum för okkar í Tangavatn í fyrradag. Veður var prýðisgott en við komum öngulsárir til baka. Höfðum ágæta útiveru en fiskurinn var ekki tilkippilegur.Fáum að reyna okkur aftur síðar án endurgjalds. Við Kimi erum löngu komnir á stjá eftir góðan nætursvefn. Annars er ég farinn að halda að kötturinn sé með svefnsýki því hann dormar meira og minna allan sólarhringinn. Tekur þó vökustundir inná milli. Hann er nú langt kominn með gamla leðurstólinn í stofunni. Tók við þar sem hinn eini og sanni Hösmagi hætti hérna um árið. Beittar klær vinna hægt og hægt eins og dropinn sem holar steininn. Hér verður þrettándagleði í kvöld með stórskotahríð. Það heitir að rota jólin. Sumir fá sér jafnvel í glas. Það verður minna um það á bindindisheimilinu í Ástjörn 7.
Það er enn sama veðurfarið. Sæmilega hlýtt en þungbúið og myrkrið ræður enn ríkjum. Rúmur hálfur mánuður frá vetrarsólstöðum og þetta fer að tosast. Fyrr en varir kemur aftur vor. Vonandi færir það okkur nýja ríkisstjórn. Feigðarmerkin eru augljós á þeirri sem enn situr. Báðir stjórnarflokkarnir eru að klofna í viðamiklum málum. ESB og stóriðjubrjálæðinu. Össur boðar 360.000 tonna álver í Helguvík. Sama þrælslundin að baki og jafnan áður. Rafmagn á broti af því verði sem við greiðum fyrir það. Fimmmilljarða ríkisstyrkur sem startgjald. Þetta er fagra Ísland sem SF boðaði fyrir síðustu kosningar. Sem betur fer eru þó ekki allir í SF ánægðir með þennan yfirblaðrara. Gasprarann, sem fyrir margt löngu grenjaði eftir stuðningi í sjónvarpinu svo hann gæti slegist við íhaldið. Slagsmálin hafa falist í því að þjóna þessu sama íhaldi til borðs og sængur. Gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri segir máltækið. Ráðherrar þessarar ríkisstjórnar eru allir í eigin heimi. Allt öðrum heimi en flest okkar hinna. Það virðist engin vitglóra til í þessu fólki. Við þurfum að gefa þeim öllum frí. Það er til nóg af hæfu fólki til að leysa þá af hólmi. Kveða alla messíasarkomplexa niður eins og draugana í gamla daga. Reyndar finnst mér nauðsynlegt að svona u.þ.b. 90% af núverandi þingmönnum ættu að hætta og leggja eitthvað annað fyrir sig. Það eru þó litlar líkur á að mér verði að ósk minni.Það væri fróðlegt að vita meðalgreind þessa liðs. Hún er örugglega lægri en hinna venjulegu Jóns og Gunnu. Ég ætla að hætta hér. Er að verða pirraður á að tala um þennan ruslaralýð, blindan og heyrnarlausan. Fari hann allur í fúlan rass.

Nú passar að leggja sig aðeins. Ljúka við alkasamfélagið hans Orra Harðarssonar sem ég náði í á bókasafnið í gær. Mjög vel skrifuð bók og margt er þar talað eins og úr mínu eigin hjarta. Síðan held ég áfram með Sjöwall og Wahlöö. Luktar dyr, Maður uppi á þaki og Maðurinn á svölunum. Semsagt gott krúttin mín, ykkar Hösmagi.

Comments:
Við tökum hann næst. Komum ekki heim með öngulinn á kafi tvö skipti í röð. No way.
 
Jammí, bara svona að láta að vita að Skotland stendur fyrir sínu og allt er í best hér í Edinborg, bestu kveðjur, Sölvi
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online