Sunday, January 18, 2009

 

Hækkandi sól.

Fjórar vikur liðnar frá vetrarsólstöðum. Glampandi sólskin og hitinn rétt neðan við núllið. Það er værð yfir okkur Dýra. Hann sefur nú inní fataskáp í svefnherberginu en ég rolast hér við tölvuna. Horfði á Silfur Egils sem er líklega það eina sem hægt er að horfa á á þeim bæ í dag. Dagskránni fer aftur með hverri vikunni sem líður. Það var þó nokkuð fyndið að sjá framsókn veittar nábjargirnar í spaugstofunni í gær. Ég varði nú reyndar ríkisútvarpið lengst af. En mér ofbýður orðið sjálfbirgingshátturinn og metnaðarleysið. Kannski er bara öll fjölmiðlun á niðurleið.Ég keypti mér reyndar helgaráskrift að mogganum í gær. Þá fær maður lesbókina og yfirleitt eru nokkuð margar greinar í sunnudagsblaðinu. Svo er auðvelt að hætta við ef þannig snýst. Það er allt við sama á stjórnarheimilinu. Það er skondið að heyra Geira lýsa því yfir að gremjulegast sé að ríkiskerfið skyldi ekki slá á putta stórþjófanna. Í hvaða veröld er þessi hagfræðingur. Hann og fleiri ráðherrar, t.d. Þorgerður, áttu vart orð til að lýsa hneykslun sinni og vanþóknum á þeim sem vöruðu við því sem var yfirvofandi. Þetta þjóðfélag er að verða svo ömurlegt að það er að verða manni áþján að vakna á morgnana. Það er þó jákvæð þróun að mótmæli almennings virðast hafa orðið til þess að æ fleira fólk innan stjórnarflokkanna sjálfra er farið að tala um nauðsyn nýrra kosninga. Hösmagi mótmælti allur við ráðhús Árborgar í gær. Það lá reyndar við að ég léti mig hverfa þegar ég sá Jón forseta á mættan. Þessa sól VG hér á staðnum. Foringjann mikla, sem talar við hirðina eins og 5 ára skólabörn. Hann verður þó nauðugur að víkja úr musterinu á næsta ári. Það væri indælt ef öflugt utanflokkaframboð kæmi fram hér á næsta ári. Fólk með nýja sýn á það sem gera þarf.Þá gæti maður hugsanlega kosið.
Dýri er nú vaknaður og hefur komið sér fyrir hér á borðinu. Malar og vil þrífa skegg fóstra síns. Ég er nú ekki sérlega hrifinn. Það er þó enginn vafi á að þetta er vel meint.
Það voru mikil veisluhöld hér í vikunni. Hrogn, lifur og þorskur. Góð tilbreyting eftir allt kjötátið og svo er þetta hollt og hækkar gáfnavísitöluna. Þorramaturinn er orðinn á stjarnfræðilegu verði. Hann er þó alíslenskur og ótengdur gengi krónunnar. Þó mér þyki sumt af þessu góður matur eru þó takmörk fyrir hvað ég læt bjóða mér. Við Dýri deildum með okkur Eyrarfiski í gær. Kílóverðið yfir 5 þúsundkall. Og nú er að verða lítill sparnaður af að versla í bónus. Þar hefur allt hækkað meira en annarsstaðar. Það vantar kannski fleiri aura í þotur og snekkjur.
Klukkan er 4 og albjart enn. Þrátt fyrir allt hlakka ég til vorsins. Unaðsstunda á bökkum Ölfusár og bjartra nátta. Við rauðliðar sendum vinum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Í öllum stjórnmála- og spillingarskítnum sem flæðir út um allt getur Hösmagi huggað sig við það hversu frábæran Sýslumann hann hefur yfir sér. Þvílíkur gargandi snillingur.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online