Sunday, January 04, 2009

 

2009.

Þó klukkan sé að ganga ellefu grúfir myrkrið enn yfir. Rigning, en ágætlega hlýtt og Kári hefur sig lítið í frammi. Þetta hefði nú stundum þótt veiðiveður. Ég velti fyrir mér Tangavatnsför. Nægilegt að fara af stað um hádegi og dunda sér við dorg í svona 3 tíma. Við Kimi tókum daginn snemma en erum búnir að leggja okkur aftur. Gott að dorma aðeins eftir að hafa farið í daglega eftirlitsferð. Þrátt fyrir allt leggst þetta ár nokkuð vel í mig. Ég trúi ekki öðru en það verði skárra en síðasta ár. Það þarf að vísu að taka ærlega til. Skipta um vonlausa ríkisstjórn og pilla alla fasistana út úr stjórnkerfinu. Það er afar mikilvægt að hreinsa óværurnar út úr stjórnarráðinu, seðlabankanum, fjármálaráðuneytinu og fjöldamörgum ríkisstofnunum. Þar sitja þær sem fastast og munu gera ef ekki verður gerð alsherjarhreingerning.Við þurfum að breyta lenskunni að embættismenn noti starf sitt fyrst og fremst í eigin þágu. Skari eld að sinni köku í stað þess að þjóna almenningi í þessu landi. Þeir eru flestallir ráðnir eftir pólitískum skoðunum sínum án tillits til hæfileika sinna.Ég vona að hugarfarsbreyting verði meðal nægilega margra til að þetta megi gerast. Það er þó augljóst að langt er í land. T.d. sagði Geir í áramótaávarpinu þegar hann hugleiddi stöðuna að hafi honum orðið á mistök þá þætti honum það leitt. Raunveruleikafirringin er algjör. Það sama gildir um alla aðra ráðherra. Þeir munu stritast við að sitja á meðan sætt er. Íhaldið hefur ráðið í meira en 17 ár. Stuðst við auðmjúkt hækjulið framsóknar lengst af og nú við SF sem sífellt er til í að láta hugsjónir lönd og leið fyrir völd og þægilega stóla. Reyndar er varla hægt að tala um hugsjónir. Fagurgalinn fyrir kosningar hefur reynst hjómið eitt. Innan flokksins er þó enn talsvert af ágætu fólki sem mundi sóma sér vel í nýrri umbótasinnaðri vinstri stjórn. Það er sannarlega tími til kominn að þjóðin vakni.

Nú er ég búinn að tala við frúna á Galtalæk. Þar er hið ljúfasta veður eins og hér, snjólaust og fiskur í vatninu. Það þarf varla meiri brýningu. Græna þruman í bílskúrnum ásamt Herconinum og annars sem til þarf. Ég held að þetta sé bara alveg rakið. Raikonen verður í húsvarðarhlutverkinu á meðan. Við sendum bestu kveðjur til vina og vandamanna, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online