Friday, January 30, 2009

 

Föstudagur.

Janúar senn lokið. Fremur svalt og u.þ.b. 20 cm jafnfallinn snjór. Ekki beinlínis vítamínsprauta á geðheilsuna og nú er hann hættur við hlákuna sem átti að koma eftir helgina. Veður er þó kyrrt og birtan eykst með degi hverjum. Aðalfundur stangveiðifélagsins er í kvöld. Þangað fer ég með pöntun á 8 veiðidögum og geri ráð fyrir hinum rómaða 3ja stanga degi þann 16. júlí. Sá 17. er frátekinn fyrir afadrottninguna Ingunni Önnu. Svo er Veiðivatnaferðin ráðgerð 11.-13. ágúst. Þó ástandið í þjóðfélaginu sé bágborið þýðir ekki að leggjast í sút og leggja árar í bát. Ég sótti jeppann aftur í gær og hafði nærri tekist að selja hann hér. Það klikkaði þó á síðustu stundu en ég er vongóður um að það takist samt innan tíðar. Það myndi létta mikið á stöðunni. Kimi snuddar hér í kringum mig og lítill áhugi fyrir útiveru í kulda og snjó.Samvera okkar hin ljúfasta eins og áður.
Nú er búist við nýrri ríkisstjórn um helgina. Talið líklegt að Gylfi Magnússon verði viðskiptaráðherra og Björg Thorarensen dómsmálaráðherra. Þetta er gott fólk sem örugglega styrkir stjórnina. Það er þó mikilvægt að hún sitji í sem allra skemmstan tíma. Við þurfum nýjar línur eftir að þjóðin hefur kosið. Því miður erum við nú þekkt fyrir gullfiskaminni og undir niðri óttast ég að við verðum í pattstöðu. Skilyrði framsóknar fyrir stuðningi við stjórn VG og SF eru líka erfið. Vonandi tekst þó að gera góða hluti á þessum stutta tíma fram að kosningum. Það væri strax verulegur árangur ef tækist að moka út úr musterinu við Svörtuloft. Gera yfirnagarann áhrifalausan til eilífðar. Það hefur alltaf verið borin von að ætla sér að breyta skítlegu eðli. Það væri verðugt rannsóknarefni að kryfja áhrifs þessa manns í þjóðmálum síðasta aldarfjórðunginn.
Myrkrið grúfir enn yfir. Ég er á útleið á eftir. Til að berjast í bönkum eins Flosi Ólafsson orðaði það um árið. VG er með heilmikla ráðstefnu á Hótel Selfossi á morgun. M.a. messar Jón Hjartarson yfir lýðnum. Haldiði ekki að ég hlaupi þangað? Ekki aldeilis. Ég fer ekki rassgat og mun nýta tímann á betri veg. Við Kimi sendum bestu kveðju úr hinni myrku kyrrð, ykkar Hösmagi.

Comments:
Við þökkum kveðjur úr hinni björtu stillu!
 
Það er ekki langrar stundar verk að gera upp feril DO. Hann fór með ÍSland svo langt að það væri skref upp á við að fara til Helvítis: Svo dró hann Seðlabankann og krónuna niður líka. Og nú tala menn um að gera hann að ristjóra Moggans. Hann hefur með öðrum orðum drepið allt sem hann hefur komið nálægt og senilegt að dómur sögunnar verði að han hafi reynst henni hinn þarfasti, einmitt vegna þess.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online