Monday, January 26, 2009

 

Flipp.

Stjórnin féll í dag svo sem augljóst var orðið. Geir nýfarinn frá Bessastöðum. Og fréttamannafundi ÓRG var að ljúka. Yfirklappstýru útrásarvíkinganna.Ég hélt að forsetinn hefði lært eitthvað af þessu hruni.En hann virðist eiga erfitt með að átta sig á verksviði sínu. Hann byrjaði fundinn með því að leggja stjórnmálamönnum línurnar í 4 liðum. Karlálftin er á algjörum villigötum í hlutverki sínu. Enginn efast um að það er í hans hendi að gefa einhverjum stjórnarmyndunarumboð. En það á hann að gera án skilyrða. Ef fyrir liggur að núverandi þingmenn geti komið saman starfhæfri ríksisstjórn fram að kosningum þá er það nóg. Það er ekki forsetans að marka stefnuna í pólitíkinni. Oft hefur gustað um þennan mann. Ég hef nú oft verið honum sammála enda kaus ég hann á sínum tíma. En nú flippaði hann algjörlega. Ég vona að hann gangi samt heill til skógar en ég hef hreinlega efasemdir um það. Er það kannski aldurinn? Hann er ári eldri en ég. Ekki er ég svona. Andskotakornið. Maður verður að vísu drjúgari með sig eftir því sem aldurinn færist yfir. Laxarnir sem ég missti stækka með hverju árinu. Íþróttaafrekin ljóma meira, bæði andleg og líkamleg. En ég er alveg meðvitaður um vald mitt og hlutverk sem almúgamaður. En það virðist mikið skorta á það hjá Ólafi Ragnari sem forseta. Ég er viss um að nú munu bloggheimar loga. Það á allt eftir að verða vitlaust. Ég ætla bara rétt að vona að þetta frumhlaup valdi eins litlum skaða og frekast er unnt. Skaðinn er samt skeður og nú er nagaranum örugglega skemmt. Ósköp verð ég feginn þegar við verðum laus við báða þessa menn þó ólíkum sé saman að jafna. Margt ágætt sem ÓRG hefur gert sem forseti en ansi fátt gott frá hinum. Hvorugur mun segja af sér og nú er bara að bíða spenntur næstu klukkutímana. Ekki aldeilis neinar gúrkur á borðum í dag.

Ég svaf heillengi í morgun eftir útiveru. Dreymdi ýmislegt skemmtilegt, m.a. hitti ég Martin Beck í draumalandinu. Uppáhaldsskáldsagnapersónuna úr sögum Sjövall og Waahlö. Hann var að sjálfsögðu líka á Grand Jeep Cherokee eins og undirrritaður.Það fór vel á með okkur og mér leið ákaflega vel þegar ég vaknaði. Litla svefnpurkan á heimilinu nú mætt hér, lögst á borðið og sofnuð aftur. Bestu óskir frá okkur báðum á þessum merkilega degi, ykkar Hösmagi.

Comments:
Eru þetta allt saman orðin 20+ punda kvikindi? Og lengsta þrístökkið kannski hátt í 17 metrar?
 
Algjörlega sammála þér með Ólaf. Athyglis- og valdasýki hans nálgast sjúklegt stig. Helst ætti hann að vera búinn að segja af sér enda kyntu fáir stjórnmálamenn meira undir með útrásinni en hann.

Það að hann ætli sér svo eitthvað hlutverk núna sem fulltrúi fólksins er dæmalaus svívirða. Sýnir best hversu sumir eiga erfitt með að skammast sín.

Ég kaus hann líka í fyrstu kosningunum sem ég hafði kosningarétt og síðan aftur með óbragð í munninum átta árum síðar. En nú fæ ég grænar bólur, sérstaklega eftir lestur hetjusögunnar hans Guðjóns Friðrikssonar.
 
Þessi bók var inni þegar ég kom síðast á bókasafnið. Það flökraði ekki að mér að fá hana lánaða. Fullsaddur af smeðju og sjálfbirgingshætti.
Ég get sagt þér það Magnús minn, að þeir eru nokkrir að nálgast 30 pundin.Og skákafrek mín nálgast verk stórmeistaranna.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online