Tuesday, January 20, 2009

 

Sólargeisli.

Það er að verða sauðljóst á þessum miðvikudegi.Hiti 2 gráður og fremur kyrrt. Það var gott að vakna í morgun. Stundum er gott að vakna eftir slæmar draumfarir. En í morgun var það af öðrum ástæðum. Það hefur að vísu lítið lagast í þjóðmálunum. Það voru þó kröftug mótmæli gegn stjórnvöldum í gær og mín trú er að þessi volaða ríkisstjórn sé á síðustu metrunum. Feigðarmerkin augljós og stutt í endalokin. Það verður byrjunin á batnandi geðheilsu þjóðarinnar. En það sem gerði það svo gott að vakna í morgun var sólargeisli í sál Hösmaga sem kviknaði við símtal í gærkvöldi.Sólargeisli, sem mun verma hugann og gleður gamlan veiðimann mjög. Sem betur fer gerast stundum góðir hlutir í svartnættinu. Hvað er ljúfara en að vonir rætist? Hösmagi er glaður í sinni í dag, stoltur og alveg bráðhress.
Ég er hugsa um að heimsækja höguðborgina í dag. Koma grænu þrumunni á nýja bílasölu. Það verður hver að sníða sér stakk eftir vexti. Þegar mikið tekjufall verður þarf að grípa til ráðstafana. Lífið heldur alltaf áfram þó á móti blási. Ég hef ósjaldan lofað þessa glæsibifreið í þessum pistlum. Besti og skemmtilegasti vagn sem ég hef eignast á minni ævi. Samt er þetta nú bara bíll. Smá eftirsjá fyrst í stað en ég fer ekki á límingunum við það. Svo er nú gamla ljóðlínan um að alltaf megi fá annað skip og annað föruneyti.
Dýri er nú risinn upp af beði sínum. Liggur í glugganum og gáir til veðurs. Hann var nokkuð drjúgur með sig í gær. Ófétið sem situr um að komast inn um gluggann, ræna mat og angra mitt ljúfa dýr sat hvæsandi á svalaganginum. Bálillur yfir lokuðum glugga. Og Dýri hvæsti hressilega á móti. Ófétið er bara áþján sem við verðum að búa við. Kannski hverfur það eins og ríkisstjórnaráþjánin mun gera fyrr en varir.
Það var aftur fiskiveisla í gærkvöldi. Rauðmagi á borðum. Þetta er feitur fiskur og bráðnar á tungu. Ákaflega bragðgóður og svo eykur hann tilfinninguna um að vorið kemur þrátt fyrir fáráðlingana í ríkisstjórninni. Það kemur að venju og ég hlakka enn meira til þess með sólargeislann í sinni. Við Kimi sendum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Hvað er að gerast? Er Höslmagi kominn á sjéns á gamalsaldri? Lengi von á einni eins og maðurinn sagði.
 
Það er að sjálfsögðu alltaf sjens á sjens. Hösmagi er reyndar mjög sáttur með sjálfum sér.Gott að vera með skemmtilegum mönnum.En þessi sólargeisli er nú af öðrum toga.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online