Friday, January 16, 2009

 

Hreinviðri.

Ágætisveður þó enn sé smásnjór á jörðu og fjallið góða hvítt niður í rætur. Hér gengur lífið sinn gang og við Kimi umberum hvorn annan og rúmlega það. Ég lauk við Berlínaraspirnar í gær. Þetta mun vera vinsælt lesefni og ég var svona nokkurnveginn sáttur við lesturinn. Kannski ekki meiriháttar bókmenntaverk en einhvernveginn heldur höfundurinn manni við efnið. Nú er ég byrjaður á Auschwitz eftir Laurence Rees og síðan kemur Valkyrjuáætlunin um tilræðið við der fuhrer. Nú er hálfur annar mánuður í skattavertíðina og það er bara tilhlökkunarefni. Í gær fékk ég loksins launin frá atvinnuleysistryggingasjóði svo allt virðist hafa skilað sér að lokum.
Ég lét skoða grænu þrumuna í fyrradag. Í fyrsta sinn því nú eru tæp 3 ár frá kaupunum. Hún rann að sjálfsögðu í gegn. Það sem mér þótti þó miður var að nú skreytir blái liturinn númerið. Miðinn fyrir 2011 er sem sagt með hinum heiðbláa íhaldslit. Ég verð að una við það en þetta óprýðir að sjálfsögðu þennan eðalvagn.
Í dag byrjar flokksþing hjá framsókn. Þeir eru voða brattir og segja að lýðurinn flykkist nú undir merkin. Sannleikurinn er þó sá að smölum kandidatanna til formanns hefur tekist að lokka til sín 150 sálir. Flokkurinn er löngu búinn að vera. Ný andlit hreinsa ekki spillinguna af þessu hræi. Hlutverki flokksins sem bændaflokks er löngu lokið og hann mun aldrei ná sér á strik aftur. Sporin hræða og hið andlega krabbamein flokksins verður ekki læknað. Svo kemur íhaldið í mánaðarlokin. Þar logar allt í illdeilum og flokkurinn í reynd þverklofinn. Eftir 18 ár á valdastóli hefur hann skilið við landið í rústum með dyggri aðstoð framsóknar. SF virðist enga burði hafa til að tjónka við hann. Enda vantar bæði hugsjónirnar og viljann. Æ fleiri SF liðar eru að verða þreyttir á ástandinu og það hlýtur að verða þar uppgjör. Ekkert er nauðsynlegra enn alsherjar endurnýjun í íslenskum stjórnmálum. Hikið, fálmið og kuklið eru orðin afar dýrkeypt. Það mun sýna sig að við munum ekki sætta okkur við þetta vonlausa lið áfram. Verst er að það er bæði blint og heyrnarlaust. Sjálfumgleðin verður til þess að það þekkir ekki sinn vitjunartíma. Þetta er þyngra en tárum taki og óhamingjunni verður allt að liði. Úff, hvílík andstyggð.Bestu kveðjur frá okkur Dýra, ykkar Hösmagi.

Comments:
Á maður að treysta valdagráðugum, hrokafullum löndum okkar til að slá ekki svo ryki í augu vitlausra landa okkar að þeir kjósa þennan flokk aftur á þing og inn í ríkisstjórn? Ég held því miður ekki. Held að best sé að treysta sem fæstum. Valdapólitíkin virðist vera að skiptast núna DVG/SB og það er sannarlega ömurlegt. Skítur. Það þarf bara að henda þessu kerfi og byggja upp nýja þjóð á rústunum. Jamm.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online