Monday, January 12, 2009

 

Kerfið.

Það er ýmislegt skrítið í kýrhöfðinu. Í fyrsta sinn um mína daga á ég rétt á atvinnuleysisbótum. Ef fram fer sem horfir verður helmingur þjóðarinnar í þessum hópi. Ég fékk einhverja smáaura í byrjun desembermánaðar. Líklega fyrir eins og eina viku í nóvember. Mér var tjáð að ég fengi svo fullar bætur fyrir desember þann 2. janúar. En það gerðist ekkert. Þann 5. var mér sagt að það vantaði skilagrein yfir staðgreiðsluskyld laun í desember. Fékk staðfesta útskrift frá sýsla og nú áttu aurarnir að koma 9. janúar. Öngvir aurar þann daginn. Ég fór aftur á stúfana í morgun. Eftir japl, jaml og fuður kom í ljós að kerfið hafði týnt bleðlinum frá sýslumanni. Ég sótti nýjan. Fékk ádrátt um aura næsta föstudag. Það er farið að jaðra við að ég vilji verða 67 ára á næsta fæðingardegi mínum. Löggilt gamalmenni. En, sem betur fer, verð ég bara hálfsjötugur þá. Það er bagalegt að fá ekki launin sín á réttum tíma. Maður verður að ómerkingi og þarf að greiða vanskilagjöld, dráttarvexti og svoleiðis fínerí. Bara helvítis fokking fokk. Ég ætla að halda ró minni þó þetta sé fúlt.
Nú er veðurspáin gjörbreytt. Frostinu ýtt til hliðar og hitastigið um og ofanvið núllið fram á helgi. Kimi viðraði sig heillengi í morgun en er nú enn lagstur fyrir í gamla körfustólnum. Sem betur fer er hann ómeðvitaður um ríkisstjórnina og aðra óáran hér á skerinu. Þessu blessða skeri, sem mér finnst enn vænt um þrátt fyrir illþýðið sem enn ræður og vini þess, stórþjófana. Einn hinna stórtæku, Bjarni Ármannsson sagðist hafa "skilað" 370 millum. Sannleikurinn er þó sá að Glitnir hafði lýst því yfir að þessar eftirstöðvar milljarðsins sem honum var skammtaður við flóttann úr hinu sökkvandi skipi, yrðu ekki greiddar. Þetta var því aðeins sýndarmennskan ein. Rannsókn á verkum útásarglæponanna mun taka langan tíma. Þegar staðreyndirnar liggja fyrir verður hver einasti eyrir þýfisins horfinn. Það er líka vitað að tætararnir í bönkunum hafa verið á fullu síðan þeir féllu, enda sama liðið við iðju sína áfram. Á þessu bera þau Geiri og Solla fulla ábyrgð.
Ég mun aldrei framar tala fyrir samstarfi vinstra fólks við íhaldið. Það er enn slatti af góðu fólki í SF.Jafnvel örfáir heiðarlegir framsóknarmenn. Umbótasinnað fólk verður að taka höndum saman um hin nýju gildi. Fyrsta verk verður að reka gjörspillta embættismenn. Frysta það af þýfinu sem enn er tiltækt. Þá verður miklu skárra að vera til. Þá kemur sólin upp aftur og vindurinn leikur í laufi. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Mig langaði nú ekki síður að hripa við síðustu færslu en þessa enda er þar vel lýst hvurslags andstyggðar þjóðfélag auðvaldseinræðis þetta er orðið. Vorum einmitt að ræða það við HS yfir hádegismatnum hversu samfélagshugtakið virðist mikið bölyrði á Íslandi. Þ.e. sameining fólks í samfélagsþágu. Spjallið kviknaði út frá öðru spjalli um sparperur. Verið að setja lög um sparperur í Evrópu enda óhemju orkusparnaður af þeim. Karl í útvarpinu lofsamaði sparperur og þessa stefnu en bætti þó við að auðvitað ætti fólk bara að fá að ráða þessu sjálft. Þetta er þessi útnárahugsunarháttur íslenski, allir verða að hafa frelsi til að tæta og trylla í eigin þágu. Hvers vegna má ekki bara skylduvæða sparperur ef þær eru svona frábærar fyrir þjóðfélagið? Skiptir einhverju að hafa "frelsi" til að nota bruðlperur? Kommon, þetta eru ljósaperur!

Íslenska þjóðin er of smá til að standa gegn því afli sem íslenska auðstéttin er orðin. Ríkisstjórnin er að auki, að því er virðist, í vasanum á þessu liði. Norðmenn reyna nú hvað þeir mega að telja okkur af inngöngu í ESB og íhaldið notar allar klær til að eitra þá umræðu. Mér segir svo hugur að það séu ekki skúringakonur sem þarna sitja á rökstólum. Þetta er auðhyski að verja vald sitt. Ég vil í ESB þó ekki væri nema til að takmarka völd þessa skítapakks. Það verður ábyggilega erfiðara að verða milljarðamæringur á Íslandi eftir inngönguna en almenningur á eftir að hafa það betra, óverðtryggð lán, stabíll gjaldmiðill, styrkir við jaðarbyggðir, menningu og uppbyggingu sprotafyrirtækja og ferðamennsku - allt sem þykir of smátt og ómerkilegt í hugum gullgolfarana sem eru orðnir langvanir að arðræna þjóðina.

Allt annars frábært frá Edinborg, sem er ósköp mikið gaman að vera kominn til aftur. Bestu kveðjur, Sössi Bjössi
 
Takk fyrir þetta minn kæri. Satt sem þú segir um að þetta sé andstyggðar auðvaldseinræði hér. Á sama tíma og skornar eru niður 1.300 millur í heilbrigðiskerfinu er hægt að eyða 1.500 í " varnarmálaskrifstofu". Sem er prumpstofnun til einskis. Það versta er að SF virðist ekki hafa kjark né vilja til að andæfa. Stólarnir of mjúkir, völdin of sæt og hugsjónirnar hjómið eitt. Það er auðvitað sjálfsagt að skoða vel aðild að ESB. En í augnablikinu er annað brýnna. Grípa þjófana og skipta um ríkisstjórn. Bestu kveðjur til ykkar Helgu. Hösi og Dýri.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online