Saturday, May 31, 2008

 

Gler.

Fyrir margt löngu vann ég við glerskurð. Þá var ég innan við tvítugt og starfaði sem sumarmaður hjá kaupfélaginu. Þetta var skemmtilegt starf en varasamt. Aðallega var ég að skera gler í glugga hjá sunnlenskum bændum. Glerið kom í stórum skífum og umbúðirnar úr tré.Hálmur á milli skífa. Glerið var að mestu 4 mm á þykkt. Einnig 3ja og 5 mm. Þynnsta glerið var langhættulegast. Ekki man ég nákvæmlega stærðina á skífunum en líkleg tala er 200x160 cm. Maður opnaði kistuna, tók fyrstu skífu fangbrögðum og lagði hana á borð. Svo var mælt og skorið með glerskera. Mér er ákaflega minnisstætt þegar ég var eitt sinn á leið með 3ja mm skífu á glerskurðarborðið.Á miðri leið heyrði ég brest og heilinn var fljótur að bregðast við. Ég sleppti skífunni og snöggsnéri mér við. Það varð hvellur. Svo var bara að moka mylsnunni upp og taka næstu skífu. Þetta var nú í gömlum bragga með steingólfi og ég sæmilega skóaður. Sennilega datt mér þetta í hug núna vegna alls glersins sem brotnaði hér á suðurlandi í fyrradag. Fátt er andstyggilegra en brotið gler á gólfum heimilis. Slysahætta veruleg við að ná því upp. Ég veit að það mun takast. Ég mokaði við heimkomu á fimmtudag. Töluvert bættist við í gær. Enn var ég að finna flísar í morgun. Og það verður áframhald. Við Kimi erum þó ósárir enn.Þetta eru þó smámunir hjá mér miðað við mörg önnur heimili. Það brotnaði nánast allt sem brotnað gat heima hjá Herði vini mínum bílameistara. Og sumt er erfitt að bæta. T.d. brotnaði heilt matarstell sem Silla konan hans átti úr eigu langömmu sinnar. Svona spes og spari. Afarerfitt að bæta slíkt. Dagurinn í fyrradag mun seint líða okkur Selfyssingum úr minni. Sama gildir um allt Árborgarsvæðið, Þorlákshöfn, Hveragerði og sveitirnar allar hér í kring. En þrátt fyrir allt eru ljósir punktar með. Það er í raun með ólíkindum að enginn skuli hafa beðið bana. Og engin veruleg slys heldur. Fjártjón má bæta að einhverju leyti en enginn verður vakinn upp eftir að öndin er úr nösinni.

Það er nú nokkuð um liðið síðan ég minntist á bæjarstjórnina okkar. Og forsetann. Snillinginn og kraftaverkamanninn sjálfan. Ég hafði það nú í flimtingum hér stundum að hann myndi stjórna veðri og vindum, vatnshæð Ölfusár og sólinni sjálfri. Ég ætla samt ekki að kenna honum um jarðskjálftann á fimmtudaginn. En það er stór spurning hvort þessar hamfarir kenni honum eitthvað. Ég hef enga trú á því. Það stendur enn til að nauðga nýja miðbæjarskipulaginu í framkvæmd. Turnspíra uppá 11 hæðir nánast ofan á misgenginu. Ég var nú við vinnu mína í hinu fornfræga húsi Sigtúnum þegar djöfulgangurinn byrjaði. Ég get sagt ykkur það í einlægni að ég hefði ekki viljað vera í turnspíru yfirfábjánans þennan dag. Eins og allir sem þekkja mig vita hef ég aldrei elskað íhaldið sérstaklega heitt. En í meirihlutanum, sem enn ber hausnum við steininn er enginn íhaldsmaður. Hann stendur og fellur með fulltrúa VG. Snillingnum áðurnefnda. Ég vona bara að við Selfyssingar og aðrir Árborgarar losnum að lokum úr álögum. Fáum almennilega bæjarstjórn og getum borið höfuðið hátt. Setjum skynsemina í öndvegi en köstum fávitahættinum á haugana.

Við Kimi erum hér báðir í rólegheitum. Hann hefur náð sér að fullu eftir áfallið. Sefur reyndar hér í horninu fyrir aftan mig á teppinu góða frá Sölva og Helgu. Ég sendi öllu góðu fólki góðar óskir og sumarkveðjur. Sérstaklega þakka ég börnunum mínum þremur sem öll hringdu í mig í fyrradag. Tvö buðu mér gistingu. Nokkuð langt í það þriðja. Sólarglenna á fjallinu mínu góða. Nákvæmlega 4 vikur í fyrsta laxveiðidaginn. Og þá verða bara nokkrir dagar í skáldið og Helgu. Ykkar Hösmagi.

Comments:
Gott að heyra að þið félagarnir séuð ósárir og eignir að mestan part óskemmdar.
 
Man nú ekki betur en að annar sonur þinn hafi eitt sinn fengið vinnu út á hinn í gluggaverksmiðju herra Hilzingers suður í handboltaþorpinu Willstätt. Gleriðja er því orðið fjölskyldufag hjá ykkur. Þó kannski best að reisa fjölskyldubissnessinn einhvers staðar annars staðar en á heimaslóðum í ljósi nýjustu skjálfta.

Gott annars að bara hlutir möskuðust en fólkið slapp og að menn og kettir eru hólpnir.
 
Já, ekki vissi ég að við deildum reynslu af þessum starfa; það er gott eitt. Bestu kveðjur til ykkar Selfyssinganna, SBS
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online