Thursday, May 01, 2008

 

Rok.

Nú er hann enn á norðan eins og segir í gömlu kvæði.Hitinn kominn í 6 gráður og sól hátt á lofti. Ég er að vona að lægi. Tangavatn bíður eftir mér. En það er hundfúlt að strengja línur í hávaðaroki. Sé til fram að hádegi.Kimi nennir ekki einu sinni að vera úti í þessum gjóluskratta. En límkássan er klár. Sú er nú ekki aldeilis að fara á límingunum. Fimmkjamma suða í gærkvöldi, plokkun og pressun í plastbox. Svo er skorið í hæfilega skammta og það sem ekki er etið strax er geymt í frystinum til betri tíma. Ég ætla að kaupa meira. Ég sá um daginn KS svið á 299 kr. kg. Mín sviðasulta er því miklu ódýrari enn SS afurðin og auk þess bragðbetri. Ég viðraði mig snemma morguns. Ég var eins og vindþurkaður harðfiskur þegar heim kom. Þá var gott að bæta á sig kaffi, velta teningum í lófa og leggja sig aðeins aftur. Rólegt yfir mannlífinu enn og líklega væri ráð að leggja til atlögu við meiri pappír. Ég sé orðið fyrir enndann á þessari árlegu törn og það er gott.Hreint borð svo hægt sé að beita sér af alefli í útiveru og veiði.
Ekki veit ég hvað kom fyrir sauðinn sem nú skipar embætti heilbrigðisráðherra. Hann pakkaði saman og gafst upp í gærkvöldi. Þetta sýnir að ýmislegt er hægt ef samstaðan rofnar ekki. Skurðhjúkrunarfræðingarnir standa með pálmann í höndunum. Sannarlega óska ég þeim til hamingju með glæstan sigur. Þetta eru nær eingöngu konur. Ég hef persónulega reynslu af því að þær eru réttar konur á réttum stað. Hlýja í orðum og athöfnum er veiku fólki ákaflega mikils virði. Við skulum halda vörð um Lsp. og allt heilbrigðiskerfið. Það er tilræðismaður sem nú er heilbrigðisráðherra. Dýrkar einkavæðinguna eins og trúaður maður guð sinn. Hann hugsar þessum konum þegjandi þörfina og mun halda áfram á sömu braut. Sálufélagi Hannesar. Draumurinn er að afhenda einkaaðilum spítalana. Eftir það er vissara að eiga aura í veskinu ef eitthvað bjátar á. Leggjumst öll á eitt til að koma í veg fyrir þessi áform.

Ég held að Kári sé enn að herða á sér. Kannski er lygnara í Landssveitinni. Upplagt að ganga frá taumum núna og hringa svo í frúna á Galtalæk. Bestu kveðjur frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments:
Hvernig gekk hjá frúnni í Galtalæk?
 
Veiðiferð var frestað til morgundagsins. Fimmtán metrar á sekúndu er bara út í hött við veiðiskap.Ég mun strengja línur um hádegisbil á morgun. Og með "ómeti" í farteskinu.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online