Wednesday, May 07, 2008

 

Vornótt.

Blæjalogn hér árla morguns. Ég fór í mjög langan göngutúr og naut kyrrðarinnar. Hitastigið er að vísu ekki nema 6,5 gráður. En lognið og vorbirtan ræður ríkjum. Hlé á úrkomunni í bili. Vætusamir dagar framundan en spáð verulegum hlýindum í næstu viku. Hvítasunnuhelgi að nálgast. Mér dettur í hug að skunda á Þingvöll á laugardag ef veður verður skaplegt. Herconinn fær að hvíla sig. Ég sannreyndi það í fyrra með skáldinu mínu í Frostastaðavatni að það er skemmtilegt að veiða smábleikju á flugu. Murtan er líka lostæti heilsteikt á pönnu. Það er heldur ekki langt í ósa Ölfusár. Nokkur ár síðan ég hef reynt fyrir mér þar. Sjóbirtingurinn er á dóli inn og út ósinn. Best er veiða á liggjandanum eða á byrjuðu útfalli. Nálægt síðustu aldamótum setti ég í 80 sjóbirtinga á rúmum klukkutíma á þessum slóðum. Fiskurinn tók mjög grannt en ég hafði þó að landa 17 stykkjum. Ég fór aftur á háflóði eftir miðnætti og bætti þónokkrum við. Hunterinn réði ríkjum og drápseðlið fékk að njóta sín. Það er þó sportveiðimaðurinn sem yfirleitt hefur völdin. Gleðst yfir litlu og getur alveg komið sáttur heim þó aflinn sé lítill. Ég hef sagt það hér einhverntíma áður að ég hef komið fisklaus en alsæll úr Veiðivötnum. Ég er viss um að línur okkar feðga og langfeðga eiga eftir að strengjast í Veiðivötnum í sumar. Ég fer bráðum að telja niður. Hlakka til að heilsa uppá Himbrimann á Ónefndavatni. Keppinautinn, sem samt er gott að hafa einhversstaðar nálægt. Í huganum heyri ég þessa fallegu fugla kallast á. Þeir eru hluti dásemdanna á þessu töfrum fyllta svæði. Sá sem ekki hefur komið í Veiðivötn á heilmikið eftir. Ég var kominn undir fertugt þegar ég leit þetta landsvæði augum í fyrsta sinn. Það var mikil upplifun að koma í þessa vin í eyðimörkinni. Svartir sandar og grjót svo langt sem augað eygði en skyndilega ertu kominn í græna hvönn og fjöllin speglast í vötnunum. Undanfarin ár hef ég skotist inneftir í júní. Stangarlaus. Heilsað upp á Vötnin, Bryndísi og Rúnar. Það verður ekki undantekning á því í ár. Aðeins rúmur mánuður í vertíðarbyrjun.

Nú er doktorsritgerðinni til skattmanns að ljúka. Aðeins 5 hausar eftir. Auk Hösmaga ehf. Undirritaður vonar að umsvifin í hinu daglega starfi fari að aukast aftur. Það er þó ekki ástæða til bjartsýni. M.a.s. húsnæðisráðherrann er uppí rjáfrinu eins og hinir.Jóhanna segir ekkert að. En hún lifir ekki á ímyndaðri fornri frægð. Nákvæmlega sama rassgatið undir henni og hinum. Sammála formanni sínum að greiða 100 millur fyrir vernd "loftrýmisins" í nokkrar vikur. Þegar Frakkarnir fara koma aðrir í þeirra stað.Fleiri hundruð milla handa þeim líka. Það er undarleg ríkisstjórn sem mokar mörg hundruð milljónum í stríðsleiki en kemur ekki með eina einustu tillögu um lausn á efnahagsvandanum. Kannski skiptir það mestu máli að eiginfjárstaða íslensku bankanna hefur stórbatnað síðan um áramót. Þeir græddu líka 42 milljarða á sama tíma.Ríksstjórnin millifærði þessa peninga beint til þeirra úr okkar vösum. Bara 189 þúsund frá undirrituðum núna í apríl.SF er jafnvel enn aumari en framsókn. Og þá er sannarlega langt til jafnað.

Við rauðliðar sendum vinum okkar bestu kveðjur úr blíðunni. Annar dormar í gamla stólnum með framloppu undir kinn. Hinn situr við tölvuna og nýtur tilhugsunar um komandi sumar um leið og hann hugsar ráðherrum landsins þegjandi þörfina. Ykkar Hösmagi.

Comments:
Veiðivötnin blífa, rétt er það. Hlakka til að renna þangað á grænu þrumunni í seinni túrnum - hvenær var það sem við áttum að lenda - tólfta? Ætli maður reyni svo ekki sem fyrr að naga út úr Hösmaga þessa eldingu þann þriðja, í fyrr túrinn. Ég get þó boðið bíl á móti í þetta skiptið, úrvals Toyotu, að mér skilst. Bestu kveðjur frá Tarragona, þar sem Helga dæsir upp úr skjalabunka og ég reyni að naga eitthvað á pappír, Sössinn
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online