Sunday, May 04, 2008

 

Helgarlok.

Ágæt helgi að kveðja. Við Kimi höfum nú aðallega gert lítið þessa daga nema að njóta samverunnar. Ég þurfti að sýna hús á Stokkseyri í gærmorgun. Þegar heim kom hringdi ég í Svein fiskibónda á Galtalæk. Hann tjáði mér að þar væri hið besta veður og nýlega hefði hann sleppt 100 urriðum í vatnið. Þetta var nóg fyrir mig. Fljótur austur á grænu þrumunni. En það var eins og vatnið væri líflaust. Ekki högg eða nart. Eftir u.þ.b. 3 klukkutíma var ég búinn að fá nóg. En, viti menn, allt í einu var tekið í og línur mínar strengdust. Gamli góði firðringurinn var endurvakinn. Fallegur urriði ca. 2 og hálft pund. Svo liðu 5 mínútur og þá gein annar við rækjunni. Rúmlega 3 pund. Þegar ekkert hafði gerst næsta klukkutímann ákvað gamli veiðirefurinn að halda heimleiðis. Vel sáttur eftir ágæta útiveru og með 2 fallega fiska. Sveinn bóndi taldi vatnið í kaldara lagi. Næturfrost þar eystra flestar nætur að undanförnu. Hann telur að urriðinn taki betur þegar hitastig vatnsins er komið í 10 gráður. Þetta var samt sem áður nokkuð góð byrjun á veiðisumrinu og Rækjunen gæddi sér á restinni af rækjunum. Laxinn í júnílok og Veiðivötnin í ágúst. Hvorttveggja leggst vel í mig.

Allt við það sama hjá landsfeðrum vorum. Og mæðrum. Algjörlega úti á þekju. Musterisriddararnir við sama heygarðshornið. Yfirnagarinn nagar og nagar. Hæstu stýrivextir í heimi sem einungis skrúfa upp verðbólguna.Vextirnir á láninu sem ég tók við kaupin á Jeep Grand hafa hækkað úr 6,5% í 10,2% eða um 56,9% Verðbólgan étur stóran kepp af eigninni í íbúðinni í hverjum mánuði. Nagarinn er fastur í gömlum hagfræðikreddum sem löngu eru úreltar eins og Ragnar Árnason prófessor benti á í gær. Nagarinn mikli heldur sínu striki. Og það versta er að ummæli Ragnars stappa bara stálinu í þenna Þvermóð. Það hefur aldrei mátt gagnrýna hann. Að eigin áliti óskeikull. Þetta fyrirbæri munum við þurfa að þola í nokkur ár enn. Enginn innan musterisins mun nokkurntíma þora að andæfa. Þeir munu verða okkur dýrir að lokum, draugurinn og hinn óskeikuli. Og lufsurnar í landstjórninni verða áfram út á þekju og hangandi uppí rjáfri. Það hrín ekkert á þeim. Það eru 6% aðspurðra ánægð með störf fjármálaráðherrans. En auðvitað er hann jafnánægður með eigið ágæti og Solla og Geiri.Kjósendur eru bara fífl til að hlæja að. Það vantar bara fiðluna svo allt sé fullkomið.

Það sést í rætur fjallsins undir þokuslæðunni. Ég brá mér upp Grafning í dag, yfir Sogið við Ýrufoss, og leit yfir landið góða. Það kúrir undir Búrfelli eins og það hefur gert lengi. Með þessa landsfeður er ólíklegt að kærleikskotið rísi á bráða næstunni. En Hösmagi er óbilandi bjartsýnismaður. Við skulum sjá hvað setur.Tölvan segir að þetta sé 5hundraðasti pistill Hösmaga frá því á jólum í Edinborg 2004.Kannski bara nóg komið. Við Táfeti sendum ykkur öllum bestu sumarkveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Eins og maður óskar gleðilegra jóla þegar þau eru hringd inn á aðfangadaga þá óska ég gleðilegs veiðitímabíls, fyrst það er hafið með þessum líka glæsibragnum.
 
Já þetta byrjar aldeilis vel, jafnvel þótt þeir hafi stundum komið fleiri upp úr þessu vatni. Hinu er ég óssammála að nóg sé komið af bloggi; þú verður að fara í að minnsta kosti 1000. Bestu kveðjur frá Tarragona, Sölvi
 
Minnir mig á gamla karlinn sem var ekki með allar talnastærðir á hreinu. " Að minnsta kosti milljón ef ekki þúsund". Sennilega dundar maður sér við þetta áfram.Rólegt hér á Bakka og ég laumast um á netinu.Vorrigning á ljóra, urriði í matinn í kvöld og rólegheit með Raikonen.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online