Tuesday, May 27, 2008

 

Sirkus Geira Smart.

Mér datt þetta gamla dægurlag Stuðmanna í hug í gærkvöldi. Svokallaðar eldhúsdagsumræður í sjónvarpinu. Lét mig hafa það að fylgjast með þeim til enda.Það var eiginlega merkilegra að fylgjast með þeim sem ekki töluðu en hinum. Með nokkrum undantekningum. Ingibjörg Sólrún og Jóhanna helfrosnar í stólum sínum. Enda báðar með vonda samvisku. Björn Bjarnason virtist sofa með hönd undir kinn. Kannski hefur hann verið vakandi og verið að hugleiða persónunjósnirnar sem nú hafa endanlega verið upplýstar.Hann hefur reyndar engar áhyggjur af þeim og mun aldrei biðjast afsökunar á þeim sem dómsmálaráðherra. Svo eru það líka grimmir hundar, mase og taser sem þarf að spá í. Óvinir allstaðar á fleti fyrir. Sirkusstjórinn sjálfur var enn við sama heygarðshornið. Gerir sér enga grein fyrir hinni raunverulegu stöðu í efnahagsmálum. Hann finnur á sér að verðbólgan muni detta niður rétt strax. Hér eru allir jafnir og ríkisstjórnin búin að efna 80% kosningaloforðanna. Össur var drjúgur með sig að vanda. Fagra Ísland t.d. orðið að veruleika. Hann minntist hvorki á Helguvík eða Bakka. Ekkert nema kjafturinn eins og venjulega.Hinir ræðumenn SF voru reyndar engu skárri. Steinunn Valdís bara ánægð með árangurinn. Allavega hrifnari en Kristín Guðmundsdóttir formaður sjúkraliðafélagsins. Einar Már fór geyst um menntamál og samgöngumál. Stærði sig m.a. af tvöföldun suðurlandsvegar. Held að það hefði mátt bíða aðeins. Keflavíkurvegurinn enn hálfköruð slysagildra. Ég ætla samt að hrósa Guðfinnu Bjarnadóttur. Hún talaði alveg tæpitungulaust. Það á að einkavæða bæði mennta og heilbrigðiskerfið. Ég er ekki viss um að sirkusstjórinn hafi verið ánægður með þessa játningu. Ræðumenn stjórnarandstöðunnar úr öllum flokkum bentu á fjölmörg ágreiningsefni innan stjórnarflokkanna. Hrefnuveiðar, ESB og margt fleira.Yfirlýsing Ingibjargar um hrefnuveiðarnar er bara skrípaleikur vegna ótta um að styggja einhverja sem hugsanlega myndu kjósa okkur í öryggisráðið. Og stjórnin er að falla á tíma með að svara SÞ vegna kvótakerfisins. Ég talaði nú yfirleitt ekki fallega um síðustu ríkisstjórn. Þessi er þó engu skárri. Og það sem verra er er að nákvæmlega ekkert var að marka málflutning og loforð SF fyrir síðustu kosningar. Allar fullyrðingar mínar fyrir kosningarnar hafa reynst réttmætar.
Klukkan er nú hálfsex að morgni. Við Raikonen vökum. Það bærist ekki hár á höfði og nú eru hvítu dílarnir í fjallinu bara 2. Ég ætlaði að sofa miklu lengur. Einhver fjandans stingur í hægri síðunni rak mig á lappir. Hann hverfur vonandi í dag enda held ég að hann tengist kvefskratta sem hefur verið að hrjá mig. Við Kimi sendum vinum og vandamönnum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, það er hrein hörmung hvernig land og þjóð eru leikin þessi árin. Íslendingar eru nú nógu frekir og yfirgangssamir fyrir svo öllum sé ekki bara gefið frítt spil til að vaða yfir aðra á skítugum skónum í nafni hins frjálsa markaðar. Sem allur er baktryggður í bak og fyrir og almenningur svo skattlagður eins og í sósíalistaríki. Þetta er hörmung, hrein hörmung.

Betra er þá að sötra kaffið sitt í sólinni og fá ekki daglegan hroll af vonsku út í þetta lið sem er búið að búa svona um hnútana. Þó manni takist því miður ekki að gleyma því með öllu.

Bestu kveðjur frá Tarragona, Sölvi
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online