Wednesday, January 03, 2007

 

Þjóðleg umbótahyggja.

Þessi gamla lumma er enn komin upp á borðið. Nú er það Bjarni Harðarson sem talar. Bjarni reynir nú hið vonlausa. Það, að komast á þing fyrir framsóknarflokkinn. Það vantar allt þjóðlegt í samfylkinguna og vinstri græna. Og ekkert þjóðlegt í íhaldinu heldur. Nema náttúrlega að þjóna því til borðs og sængur eins og framsókn hefur gert síðustu árin. Þetta er nú gamalkunnug aðferð við að reyna að leyna staðreyndum. Þeim staðreyndum að framsóknarflokkurinn hefur kastað öllum gömlu góðu gildum sínum fyrir róða. Kárahnjúkavirkjun er sérlega góð. Kemur m.a. í veg fyrir að ýmis efni berist til sjávar og eitri fiskinn í sjónum. Og landið undir lóninu verður áfram til staðar og hægt að tæma lónið og endurheimta landið þegar framsókn þóknast. Og Bjarni er nú afskaplega þjóðlegur. Hefur til dæmis verið að markaðssetja drauga undanfarin ár. Tröll og álfa. Ég er líklega ekki nógu þjóðlegur. Daðra jafnvel við vinstri græna sem flestir eru laumukommar að villa á sér heimildir. Illa innrættir andskotar sírífandi kjaft.En ef betur er að gáð eru þjóðlegheit framsóknar fólgin í ólæknandi valdasýki. Bitlingastefnunni og áráttunni við að hjálpa íhaldinu við að gefa eignir þjóðarinnar. Hafa margföld völd miðað við kjörfylgið. Raða á garðann eins og 6% maðurinn í höfuðborginni. Þetta kalla þeir þjóðlega umbótahyggju.
Við þurfum að hreinsa ærlega til í pólitíkinni hér á landi. Skera báða ríkisstjórnarflokkana. Og jarða framsóknarflokkinn endanlega. Það væri ákaflega þjóðleg umbótahyggja. Og það er næsta víst að ríkisstjórnin mun falla í næstu kosningum. En það er nú bara hálfur sigur. Miklu skiptir hvernig til tekst með nýja ríkisstjórn. Það verður hörð barátta framundan og mjög erfitt að spá í spilin. Mín von er sú að vinstri grænir verði næststærsti flokkurinn að kosningum loknum. Það er engin goðgá að ætla að svo verði. Og þá verður lag til að mynda stjórn sem breytir um stefnu. Meiri von til þess að hinn smái fái uppreisn. Að við fáum að standa upprétt og lítt vígfús. Nema til að murka lífið úr öllu óréttlæti íhalds og framsóknar. Fram bræður það dagar nú senn. Með bestu kveðjum á nýju ári, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online