Monday, January 29, 2007

 

Skjálftavirkni.

Það er titringur á hinni pólitísku skjálftavog þessa dagana. Nú ætti það að vera ljóst þeim sem ekki vissu áður hvað frjálslyndi flokkurinn er. Aðallega nokkrir utanveltubesefar sem ekkert erindi eiga í íslenska pólitík. Eftir svokallað flokksþing um helgina stendur ekki steinn yfir steini. Flokkurinn bara rjúkandi rústir. Ekki harma ég það. Eina hættan því samfara er að það gæti orðið vatn á myllu framsóknar. Það væri nokkuð dýrt ef sjónarspil tveggja stjórnarandstöðuflokka yrði til þess að stjórnin héldi velli. Í hvert skipti sem formaður samfylkingarinnar opnar munninn á almannafæri minnkar fylgi hennar. Það mælist nú vart 2/3 þess sem var í síðustu kosningum. Spá mín hefur kannski ræst fyrr en ég bjóst við. Samfylkinguna skortir nánast allt. Í fyrsta lagi stefnu og hugsjónir. Í öðru orðinu er talað um stóra flokkinn sem á að vera valkostur gegn Sjálfstæðisflokknum. Í hinu orðinu daðrar Ingibjörg við þennan sama flokk í Mogganum. Að nokkru er þetta sama veiran og hrjáir framsóknarflokkinn. Veira valdasýkinnar. Það bendir flest til að spá mín um frama Ingibjargar sé rétt. Hún mun aldrei verða forsætisráðherra. Skákmaður sem leikur af sér hverjum manninum á fætur öðrum nær ekki árangri á skákborðinu. Hann á bara einfaldlega engan séns. Menn uppskera eins og sáð er til.Auðvitað hefði undirritaður óskað eftir því að niðurstaða kosninganna í vor hefði leitt til myndunar vinstri stjórnar. Velferðarstjórnar sem hefði tekið til eftir núverandi stjórnarflokka. Eftir því sem hægt er. Því miður sýnist ekkert slíkt vera í kortunum. Þessvegna tala ég um næstbesta kostinn. Stjórn VG og sjálfstæðisflokks. Kannski ekki neitt óskabarn en örugglega það langskásta fyrir þjóðina. Málefnasamningur slíkrar stjórnar verður að vera pottþéttur. Ég tel enga hættu á að VG verði hækja íhaldsins. Vegna þess að flokkurinn mun aldrei selja sig fyrir baunadisk eins og framsókn. Og með þennan núverandi foringja í SF er sá flokkur tilbúinn í hvað sem er fyrir völd. Það getur svo sem ýmislegt gerst fram að kosningum. Von mín er sú að VG muni enn bæta í fylgið. Fleiri og fleiri vinstri menn eru að koma heim úr eyðimerkurgöngunni í SF. En við skulum vera þess minnug að ef stjórnin heldur velli verðum við áfram á kafi í mykjuhaugnum. Það má alls ekki gerast.

Hlýi fasinn er enn við völd í veðurfarinu. Það styttir veturinn og gerir allt bærilegra. Hösmagi enn með pestarfjandann. Þó skárri nú en í gær.Raikonen á ferðinni út og innum gluggann og unir hag sínum vel að venju. Göngutúrar undirritaðs liggja niðri í þessu ástandi. Hlakka til breytinga þar á. Gaman væri nú ef við gætum sagt í kvöld: Þar lágu danir í því. Ég er hæfilega bjartsýnn. Allt getur gerst en ég ætla ekki að leggjast í sút þó við töpum. Dagsformið mun ráða hér eins og oftast. Metnaðurinn virðist til staðar og ég vona að sjálfsögðu að við komumst í úrslit. Það væru söguleg tíðindi. Bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Já, enn verðum við að deila í þessu máli. Ég hef áður líst efasemdum mínum yfir þessari gegndarlausu gagnrýni á IS, þó svo hún sé eflaust réttmæt í einhverjum tilvikum eins og raunar um flesta stjórnmálamenn - líka í VG. Manstu til dæmis þegar flokksforystan í VG ætlaði að fara að beita sér gegn lögmæti fóstureyðinga? Ekki reyndar ég sé hlynntur fullkomnu kæruleysi í slíku máli, ég er einungis þeirrar skoðunar að líf og aðstæður uppvaxinnar manneskju verði að vega þyngra en frumunnar í kviði hennar. Núverandi lög miða þegar gegn misnotkun á þessum rétti, t.d. með harðari tímamörkum en tíðkast hér í Bretlandi, svo eitthvað sé nefnt. En þetta er svosem útúrdúr. Ég stend við þá skoðun mína að það sé ástæðulaust og jafnvel óverjandi að dæma IS harðar en til dæmis forystu sjálfstæðisflokksins. Þá skoðun hef ég áður rökstudd í kommenti á þessu bloggi.

Veður er annars milt hér, andvari, miðskýjað og hiti sæmilegur. Kær kveðja, Sölvi
 
Ég er nú ekki viss um að við séum neitt að deila. Ég hef vissulega gagnrýnt ISG á stundum. Ég hef líka sagt að hún hafi fellt íhaldið í Reykjavík á sínum tíma. Það var meiriháttar afrek. Og forystumenn íhaldsins hér á landi hafa nú yfirleitt ekki fengið nein hlý orð frá mér. Fóstureyðingar eru viðkæmt mál. Allsstaðar í heiminum. Ég tel þær eiga fullan rétt á sér ef skilyrðin eru rétt. En mér finst nú ekki rétt að beita þeim eins og félagslegum úrræðum. Kannski er meðalhofið best þar eins og í flestum efnu. Með veiðikveju úr blíðunni.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online