Thursday, January 04, 2007

 

Vettvangur.

Ég var að lesa pistil Sigga danska um Draumalandið. Mér sýnist við vera óvenjulega sammála í þessum efnum. Og það er rétt athugað að sumt sem gert hefur verið í mótmælaskyni við áldelluna á undanförnum árum hefur bara virkað eins og lélegur brandari. Þjóðrembupólitíkin hefur löngu gengið sér til húðar. Ég hef nú talið mig ljóðelskan um dagana. En það er auðvitað fáfengilegt að þylja ættjarðarljóð yfir atvinnumótmælendum uppá hálendi. Kannski hefur Andri Snær gert okkur vinstri grænum mikinn greiða með bók sinni. Nú er það ekki svo að allir sem nú hafa áttað sig þurfi að kjósa lista vinstri grænna. Aðalatriðið er að sjálfögðu að breyta stefnunni. Stjórnarflokkarnir eru báðir útataðir vegna hryðjuverkanna gegn íslenskri náttúru. Og það sem verra er að við seljum raforkuna á spottprís. Og ekki er það nú beinlínis trúverðugt hið nýja slagorð SF, Fagra Ísland. Formaðurinn segir að batnandi fólki sé best að lifa. Það má taka undir það. En hann sá nú ekki ástæðu til " að setja fótinn fyrir þetta mál" á sínum tíma. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ber fulla ábyrgð á tilurð Kárahnjúkavirkjunar. Hún sér núna að vinstri menn snúa sér til trúverðugari flokks í þessum efnum. Þá er reynt að flagga nýjum fánum. Mín gamla spá um að vinstri menn átti sig er að ganga eftir. Það er helst hér í Suðurkjördæmi sem virkjunarflokkarnir halda velli. Samkvæmt spám eru íhald og framsókn hér með samanlagt 54% atkvæða. Samfylking með heilmikið en vinstri grænir 11%. Það er hinsvegar afar athyglisvert að í norðausturkjördæmi hafa vinstri grænir 27% atkvæða samkvæmt sömu spá. Það er einmitt kjördæmið sem Kárahnjúkavirkjun er í. Það er virkilega gott ef hugarfarsbreyting verður hjá fólki varðandi stóriðjustefnuna. En við skulum vera á varðbergi. Jafnvel Geir Haarde segir nóg komið í bili. En það kann að breytast eftir kosningar. Þessvegna verðum við að fella þessa ríkisstjórn. Koma henni endanlega fyrir kattarnef. Gefa öllum álfurstum frí. Endanlega hvíld. Og sannarlega er brýn nauðsyn að breyta um stefnu í utanríkismálum. Hætta að éta allt hrátt frá CNN. Skilja okkur frá morð- og eyðileggingaræðinu í Írak. Ég bíð og vona. Ég ber að vísu ekki persónulega ábyrgð á núverandi stjórnvöldum á Íslandi. En ég er íslendingur og verð auðvitað að skammast mín fyrir þetta fólk eins og margir aðrir ærlegir landar mínir. Við skulum valta yfir þetta lið svo ekki standi steinn yfir steini. Nóg kveðið að sinni, kærar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online