Monday, January 29, 2007

 

Ónýtt drasl.

Um daginn fékk undirritaður einhverja slæmsku í aðra löppina. Varð draghaltur og hægri ökklinn bólgnaði upp. Eins og oft áður ákvað ég að láta þetta lagast af sjálfu sér. Og það gerði það á nokkrum dögum. S.l. fimmtudagsmorgun var ökklinn orðinn svona á ný. Ég fór í apótekið og keypti mér sokk, kæligel og voltaren emulgel sem ku vera allra meina bót. Svo hringdi ég á spítalann og fékk tíma þar í dag. Var heima hálfan fimmtudaginn en dragnaðist til starfa á föstudag. Löppin fór að lagast á laugardag. Og enn betri í gær. En þá komu nýjar hremmingar yfir Hösmaga garminn. Heimsvaldaflensan birtist á ný. Ekkert day nurse og skáldið mitt víðsfjarri.Svefninn er nú besti læknirinn ef fólki tekst að sofa. Í hálfleik í leik spánverja og króata slökkti ég á sjónvarpinu og skreið undir sæng mína. Var svo rænulaus til miðnættis.Engin matarlyst en kókið ágætt. Dró mig svo aftur í bælið og svaf til morguns. Svona til að geta hringt í vinnuna og boðað forföll. Svaf svo enn til kl. 13. Þung spor upp úr fletinu til að hitta doktorinn. Líklega svolítið grínagtugur náungi. Sagði nú nánast að ég væri orðinn gamall og lélegur. Svona allt að því ónýtt drasl. Ég hlyti að hafa misstigið mig og löppin væri bara svona. Sagði mér að ég skyldi bara hringja í heimilislækninn næst þegar löppin klikkaði. Og flensan gengi yfir. Það er ég reyndar viss um að hún gerir. Var að vakna aftur eftir indælan svefn.Og það styttist í að ég dragi mig enn til bælis. Með eldhúsrúlluna með mér. Stöðugt nefrennsli eins og það er nú geðslegt. Ég ætla að sýna þessum grínara á spítalanum að það sé víðsfjarri að ég sé orðinn alónýtur. En einhvernveginn finnst mér að ég hefði eins getað sleppt för minni inná þessa stofnun.Borgaði aðgangseyri en fór bónleiður til búðar. Eins og Skarphéðinn forðum. Sem betur fer eru ekki líkur á að ég smiti Raikonen af pestinni. Leikur við hverja kló sína og heldur sig nálægt fóstra sínum. Ég vona að ég komist til starfa á morgun. Ætla þó ekki að hætta á neitt og reyna að losna við flensuskrattann. Klukkan langt gengin 6 og enn smáskíma.Styttist í vorið og allt sem því fylgir. Birtuna, veiðiskapinn og fyrirheitna landið. Og þá er eins gott að vera ekki húsbóndagrænmeti.Ónýtt drasl. Ef eitthvað er öruggt þá er það það að Hösmagi rís upp frá dauðum eins og jafnan áður. Á margt ógert enn. Læt duga að sinni og sendi ykkur öllum góðar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Uss, hvað er að heyra. Mér þykir þess pest helst til kreðsin á þig og mæli með að þú étir meira. Át er gott, líka við flensu.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online