Wednesday, January 24, 2007

 

Hin nýja stétt.

Eftir einkavæðingaræði ríkisstjórnar íhalds og framsóknar undanfarin ár hefur orðið til ný stétt manna hér á landi. Manna, sem hafa margar milljónir í mánaðarlaun. Sumir tugmilljónir. T.d. eigendur og forstjórar fyrrum ríkisbankanna sem afhentir voru á gjafverði. Og reyndar Glitnis líka. Þar er forstjóri Bjarni Ármannsson. Mjög snyrtilegur ungur maður. En það er eins og þetta lið hugsi allt á svipuðum nótum. Telur sig vera velgjörðarmenn almúgans á Íslandi. Það sést á auglýsingunum, m.a. Þeir sjá um þetta allt fyrir okkur. Gull og grænir skógar fyrir almúgamanninn. En ef betur er að gáð eru þetta verstu okurstofnanir á landinu. Enda sýna afkömutölur þeirra það. Bjarni sagði nýlega að færa ætti orkugeirann í hendur einkaaðila. Nokkuð drengilega mælt. Enda voru bankarnir færðir þessum sömu aðilum á silfurfati. Þeir draugsi og nagarinn hafa bókstaflega klakið út svona fuglum. Svo sagði Bjarni líka að ákvarðanir um fjárfestingar ætti að taka út frá forsendum fjárfesta. Mannanna sem helst ekki borga tekjuskatt. Og þeir sem greiða bara fjármagnstekjuskatt losna við nýja nefskattinn hennar Þorgerðar. Þetta er í raun allt ein sorgarsaga. Einn þessara manna varð 50 ára fyrir nokkrum dögum. Hann fékk Elton John til að skemmta gestum sínum undir dinnernum. Þessi maður var í svokölluðum S hópi. Hópi nokkurra valinkunnra heiðursmanna draugsins. Fengu gamla Búnaðarbankann fyrir nánast ekkert. Þarna var líka Finnur Ingólfsson. Þið kannist kannski við þann mann? Þetta eru mennirnir sem eiga að erfa landið. Kannski að þeir eigi eftir að eignast Landsvirkjun, Ríkisútvarpið og ýmislegt annað sem enn tilheyrir almenningi að nafninu til. Ef þessi stefna fær að verða við lýði áfram verðum við sauðirnir bara ánauðugir þrælar hinnar nýju stéttar. Ríkisstjórn og Alþingi hreint aukaatriði. Ánauðin er reyndar byrjuð fyrir löngu. Við sem erum að borga okurvextina borgum fyrir Elton John þegar hann kemur og syngur í afmælum þessara nýju lénsherra hér. Sumir þeirra gefa til menningar og líknarmála af lítillæti sínu. Á milli þess sem þeir kaupa fótboltalið í útlöndum. Og ganga allir á guðsvegum. Hvar annarsstaðar? Framsýnir menn þeir nagarinn og draugsi.

Nýr veðurfasi með hlýindum eftir frostakafla. Systir mín yngri 65 ára í dag. Sendi henni bestu óskir mínar. Og glæsivagninn er eins árs. Nákvæmlega ár siðan Hösmagi renndi í hlað hér í Ástjörninni, hálffúll yfir að enginn tæki eftir sér á þessari einstöku glæsibifreið. Hún hefur sannarlega staðið undir væntingum þetta ár sem liðið er. Og mun gera áfram. Nóg kveðið að sinni, kærar kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þar sem hjörtu okkar slá nákvæmlega í takt, kæri faðir, utan árbakkanautnar og væntanlega sitthvers annars, er í þessum orðum og innihaldi þeirra. Íslenskt nútímaasamfélag er afsprengi undirmálslegs kunningjasamsæris auðvaldsstéttar og það svíður að sjá afleiðingarnar og óafturkræfa mótun komandi kynslóða sem þeim fylgir. Í svona auðugu landi er skömm að svo mörgu og sú stéttaskipting sem orðið hefur er smán mennskunnar sem við aðhyllumst.
 
Ekkert svo sem að velfengnum gróða. En þegar að fólk fær að ræna pening úr ríkiskassanum um hábjartan dag, bara af því að það er í réttu S-klíkunni og skráð í framsókn þá ofbýður manni. Sérstaklega þegar að peningarnir eru notaðir til þess að monta sig af því hvað maður sé ríkur með því að flytja inn heimsfræga tónlistarmenn.
Aðallega lýsir þetta því þó hversu mikill óttalegur plebbi þessi Ólafur er.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online