Saturday, January 20, 2007

 

Sauðkind.

Sauðkindin Laufey neitaði að taka sjötta sætið á lista framsóknar í NA kjördæmi. Það gerði þó ekkert til því það eru sauðir í 4 efstu sætunum. Heimild mín fyrir þessu er sjálfur Baggalútur og hann lýgur aldrei frekar en Mogginn. Sauðkindin er nokkuð merkilegt dýr. M.a. er hún þakin svokallaðri ull og það er nú aldeilis flott þegar skáld fá áhuga á prjónlesi. Svo er mjög gott að éta hana. Það sannaðist vel í gjarkvöld. Undirritaður át portvínslegnar lundir. Besti matur sem hann hefur bragðað í mörg ár. Bökuð kartafla, ofnsteiktur laukur og hvítlaukur ásamt salati. Hösmaga fannst vænt um kokkinn áður og enn meira á eftir. Svo má náttúrlega ekki gleyma sviðunum, slátrinu, lifrarpylsunni, kótelettunum, lærissneiðunum og nefndu það bara. Ég segi nú ekki annað en, hvar værum við ef ekki væri sauðkindin.
Þorrinn byrjar sem sagt vel. Hrútspungar, hangikjöt, bringukollar. Sauðkindin enn og aftur. Svo spáir hann þíðu og blíðu í framhaldi af þessu indæla morgunveðri. Hösmagi hefur að venju hnusað af góða veðrinu en kokkurinn ljúfi sefur. Og Raikonen tók þátt í veisluhöldunum. Hann fékk rækjur á sinn disk. Það er nú eiginlega í stíl við nafnið. Rækjunen. Hljómar mjög vel. Hann er nú að kanna snjóalög hér utandyra, fullur orku af þessu sjávargóðgæti.
Þeir ætla að telja atkvæðin í prófkjöri framsóknar hér í dag. Þetta var nú svolítið sérstakt prófkjör. Hafnfirðingar gátu t.d. gengið í framsóknarfélag Selfoss og kosið Guðna. Eða Hjálmar spakvitra. Og Bjarna hinn þjóðlega. Ísfirðingar og Dalvíkingar gátu þetta líka. Ég var beðinn um að ganga í framsóknarflokkinn svo ég gæti líka tekið þátt í mannvalinu mikla. Ég sagði sem var að ég væri ekki framsóknarmaður. Það væri nokkuð alkunn staðreynd. En það skipti engu. Ég gat bara sagt mig úr flokknum þegar ég væri búinn að vera flokksbundinn í mínútu og hefið krossað við rétta fólkið.
Mér varð þó ekki þokað neitt. Lýðræðið er skrýtið víðar en í Írak. Líklega hef ég ekki nægan pólitískan þroska til að skilja að ekkert sé eðlilegra en að ég taki þátt í uppröðun á lista flokks pólitískra andstæðinga minna. Sem ég hef verið að spá hægfara hjartaáfalli að undanförnu. Og ekki farið að gráta neitt yfir afleiðingum þess. En svona er þetta. Sumir skilja aldrei nokkurn skapaðan hlut. Alltaf við sama heygarðinn. Hafa ekki rétta sýn á hið eina og sanna lýðræði.
Hösmagi er alveg óvenjulega hress og kátur í dag. Rósemi hugans við völdin. Og mikil vellíðan eftir yndislegt kvöld dagsins í gær. Hann þarf sannarlega ekki að kvarta yfir tilverunni í dag. Þegar bjart verður ætlar hann að líta eftir fyrirheitna landinu, sem nú er snæviþakið. Og kokkurinn góði fer með honum. Sannarlega tilhlökkunarefni. Megi sama gleði hríslast um ykkur öll, krúttin mín kær, ykkar Hösmagi, auðmjúkur og ástfanginn.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online