Monday, January 08, 2007

 

Grámi.

Jólin hafa kvatt og hinn grái hversdagsleiki tekið við. Nokkur kuldi í veðurkortunum svo langt sem augað eygir. Hvít slæða yfir landinu en færð víðast hvar ágæt. Styttist í hákarlinn, hrútspungana og meira hangikjöt. Steinbítinn eldrauðan svo lýsið lekur út um munnvikin. Það er toppurinn sjálfur hjá Hösmaga. Bókstaflega ótrúlegt ljúfmeti. Þó unga fólkið lifi nú orðið margt af pizzum og hamborgurum, pasta og öðru skyndifæði er þó nokkur hópur sem étur þorramatinn. Sumir hafa hátt um að það sé bara snobb að éta eitraðan og skemmdan mat. En einhvernveginn lifðu forfeður okkar á þessu meiri hluta ársins. Engar frystikistur í den. Við erum nánast að drukkna og kafna í mat alla daga. Ég hugsa stundum út í heim þegar ég sit að kræsingum. Misskiptingin verður til þess að margir eru sísvangir alla tíð. Og margir svelta til bana. Það er auðvitað skelfilegt í heimi sem býr yfir miklu meiru en við getum torgað. Og ríku þjóðirnar eru tregar til að hjálpa hinum. Enda byssa oft betri en brauð að því er virðist. Svo eru að koma kosningar hér. Matarskatturinn lækkar korteri áður. Þá verður hægt að éta enn meira fyrir sama pening. Það er ekki að spyrja að þessu blessaða fólki sem nú stjórnar þessu útskeri. Ekkert nema manngæskan.Næstu mánuðina. En verkin tala frá fyrri tíð. Og það er fleira matur en feitt kjöt. Því miður eru hér alltof margir á fátæktarmörkum. Á sama tíma hafa vildarvinir ríksstjórnarinnar eignast bestu mjólkurkýr þjóðarinnar á tombóluverði.
Ríkið má alls ekki eiga neitt sem gefur arð. Allt á að einkavæða vegna klisjunnar um að ríkið eigi ekki að vasast í því sem einstaklingurinn getur gert. Það er þó margsannað að öll þjónusta verður dýrari eftir einkavæðingu. Og hún minnkar líka. Það sannast best á Símanum. Og bankarnir eru orðnir mestu okurstofnanir landsins. Nýju eigendunum hefur tekist að finna margar nýjar matarholur. Segi kannski meira frá því seinna.

Hösmagi er hress á nýju ári. Þraukar Þorrann og Góuna eins og venjulega. Vorið kemur, skógrækt, veiði, kosningar, útivera með góðu fólki og fleira skemmtilegt. Ný ríkisstjórn sem verður betri en sú er nú situr. Það er líklega mesta tilhlökkunarefnið. Með kveðju frá okkur Kimi, ykkar Hösmagi.

Comments:
Þorramatur er góður matur, rétt er það.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online