Saturday, July 30, 2005
Haust ?
Ekki samkvæmt dagatalinu og vonandi ekki í raun. Hálfhaustlegt að líta út. Sæmilega hlýtt að vísu en gengur á með skúrum og stormbeljanda. Líklega mætti halda að undirritaður hefði fengið nóg af veiðiskap að sinni eftir að hafa verið að veiðum 2 daga í lok júní og 13 daga í júlí. Svo er þó alls ekki. Fannst of langt að bíða Veiðivatnanna þann 12. ágúst og bætti því við 2xhálfum degi. Þ.e. f. hádegi á morgun og eftir hádegi á mánudaginn. Áin hefur snarlagast og alltaf er von í fiski ef færið er í vatninu. Nú hafa veiðst 130 laxar í Ölfusá og undirritaður náð í 15 af þeim. Hösmagi því nokkuð góður með sig. Tímataka var í Formúlu 1 í morgun. Hösmagi fylgdist að sjálfsögðu með og það var mjög athyglisvert að kötturinn Raikonen stöðvaði ærsl sín og fylgdist einnig spenntur með nafna sínum aka hringinn. Og eitt er víst og það er að báðir eru þeir eldsnöggir. Þeir Baltasar Kormákur, sá norski í næstu íbúð, er hér daglegur gestur. Heljarstór fressköttur og það er viskilega spaugilegt að sjá litla dýrið hjóla í þann stóra. Allt virðist þetta á góðu nótunum og báðir ósárir eftir hvern bardaga. Raikonen heldur uppi vana sínum að vekja mig á nóttunni. með gælum og mali. Vona að þetta venjist af honum þegar hann stækkar. Hef enn ekki haft brjóst í mér til að loka hann frammi á nóttunni. Og hann hefur það fram yfir konurnar að það er aldrei neitt jakeddí jagg. Líklega er þetta bara annkoti gott þó fyrir komi að maður sakni hitans. Hef það annars bara þrælgott og bið að heilsa að sinni. Hösmagi, enn í fríi.
Tuesday, July 26, 2005
Sumarfrí.
Fiskihrellir ætlar í sumarfrí að loknum þessum vinnudegi. Næ þannig 6 dögum þegar verslunarmannhelgin er meðtalin. Ætla að halda mig mestmegnis á bökkum Ölfusár þessa þrjá virku daga sem eftir lifa vikunnar. Áin er nú ekki sérlega fallega þess heitu og sólríku daga. Yfir 20 gráður hvern dag og mikil sólbráð á Langjökli. En það verður samt indælt að þjóna veiðieðlinu þessa daga. Alltaf von í fiski þó vatnið sé nokkuð litað.Í gærkvöldi höfðu veiðst 119 laxar á stöng úr ánni. Ekki svo slæmt miðað við undanfarin ár, en þó ekki svipur hjá sjón miðað við hina gömlu, góðu daga. Við skáldið höfum landað 16 löxum sem eru líklega nálægt 13,4% aflans. Svo við erum bara nokkuð góðir. Auðvitað stendur hugurinn til frekari afreka en kylfa verður að ráða kasti. Allavega hlakka ég til að yfirgefa kontórinn klukkan 5. Byrja þá á að viðra Raikonen. Hann hefur reyndar orðið aðgang að svölunum og unir því nokkuð vel. Samt lítill heimur og voða gaman að þeytast eftir svalaganginum. Og fara í stutta leiðangra með félaga sínum Baltasar. Fóstri stutt undan og gott að hafa hann nærri. Þó allir kettir sem ég hef kynnst hafi verið sólgnir í harðfisk þá held ég að Raikonen slái öll fyrri met í þeim efnum. Fer orðið reglulega í Bónus eftir nýjum birgðum. Erum yfirleitt fljótir með hvern poka. Sólarkveðjur, Hösmagi.
Thursday, July 21, 2005
Hunter eða sportveiðimaður?
Stundum hef ég flokkað stangveiðimenn í sportveiðimenn og huntera eða drápara. Talið mig til þeirra fyrrnefndu. En stundum efast ég um að þetta sé rétt. Ég var kominn á árbakkann löngu fyrir 7 í gærmorgun. Svolítið hráslagalegt eftir heitan dag í fyrradag. Þokuslæðingur og áttleysa. En ég sá til fiska í ánni. Svo hófust veiðitilraunir kl 7. Fljótlega hafði ég sett í fisk. Hann hrækti þó agninu út úr sér fljótlega. Hálftíma síðar fór svo annar að rjála við ánamaðkinn. Bauð honum í morgunverð í huganum. Og hann renndi hreinlega maðkinum niður í maga. Silfurgljándi 7 punda hængur lá skömmu síðar á bakkanum. Góð byrjun á deginum og nú fór að létta til. Ég og veiðifélagar mínir sáum nokkuð marga laxa á morgunvaktinni en þeir voru flestir utan kastfæris í þessari jafnvatnsmestu á landsins. Við áttum þó góða útiveru út vaktina þó ekki veiddist meira. Ég kom við á skrifstofunni enda virðist heimsendir á næsta leiti ef ég þarf að yfirgefa kontórinn í miðri viku. Slapp þó að mestu þó ég þyrfti að ganga frá einu kauptilboði.Hélt svo á efra svæði árinnar rétt fyrir 4. Byrjaði með túpuna uppá Miðsvæði án árangurs og hélt á minn gamla, góða stað, Klettsvíkina. Þessi veiðistaður er líka stundum kallaður Lögmannshlíð. Læt ykkur um að giska á hversvegna. Ekkert gerðist fyrst í stað. Skyndilega, rétt fyrir 5 hljóp laxinn á og var háfnum fljótlega komið undir hann. Eftir 10 mínútur stóðst annar ekki mátið. Líkaði ekki við matinn og hrækti honum út úr sér. Korteri síðar kom sá 3ji og var bara hæstánægður með þetta veisluborð. Og hans biðu sömu örlög. Laxaspillir einhenti háfinn undir hann. Rétt fyrir 6 var enn matgæðingur á ferð í undirdjúpunum. Þá lágu 3 silfraðir hlið við hlið á bakkanum. Og hinn afburðageðprúði sportveiðimaður hafði nú skyndilega breyst í hunter. Nú var markmiðið orðið eitt: Að drepa fleiri laxa. Bunka þeim upp. Eins og þegar minkurinn drepur allar hænurnar í kofanum og raðar þeim snyrtilega upp eftir morðin. En þetta rann fljótt af. Ég sagði veiðifélaga mínum, sem aldrei fyrr hafði veitt í ánni að nú skyldi hann taka við staðnum. Og útlistaði fyrir honum eftir bestu getu hvernig bregðast skyldi við. Lét honum eftir háfinn, hélt á brott með stöng mína og feng. Svo gerðist hreinlega ekkert meira. Nema við nutum allir útiverunnar og góða veðursins. En það var nú nokkuð drjúgur Fiskihrellir sem bókaði afla sinn í veiðikofanum kl. 10 og hélt heim með 3 gjörspillta laxa til viðbótar við morgunfiskinn. Og Raikonen aldeilis undrandi á þessu öllu saman. Yndislegt bara, ykkar Hösi.
Tuesday, July 19, 2005
Fallegur dagur.
Nánast heiðskírt. Samkvæmt bandarísku veðurstöðinni á Reynivöllum 4 er hér 19,3 stiga hiti. Kannski ekki beinlínis veður fyrir blogg. En þrælakista kapitalistanna heldur manni innivið þó fáir hringi og enn færri komi. Verð að þrauka til kl. 17. Verst að geta sennilega ekki nýtt veiðidag til fulls á morgun. Sumarfrí og veikindi hér á kontórnum. Ef dauft er yfir veiði er bara yndislegt að leggja sig á árbakkanum og sofna við niðinn. Hef nokkrum sinnum gert það í álíka blíðu og nú ríkir hér. En sannarlega verð ég á bakkanum kl. 7 í fyrramálið.
Hleypti Raikonen út á svalir í hádeginu. Þarf að byrgja rifurnar neðst og þá er líklega óhætt að skilja svaladyrnar eftir opnar. Ræfillinn grét eins og smábarn þegar ég lokaði öllum útgönguleiðum og yfirgaf hann eftir hádegið. Býð honum kannski í rannsóknarleiðangur í bílskúrinn á eftir.
Það er svo ljúft að blogga blogg
er blíðan tekur völdin.
Ágætt líka að ybba gogg
einkanlega á kvöldin.
Með sólskinskveðju, ykkar Hösmagi.
Hleypti Raikonen út á svalir í hádeginu. Þarf að byrgja rifurnar neðst og þá er líklega óhætt að skilja svaladyrnar eftir opnar. Ræfillinn grét eins og smábarn þegar ég lokaði öllum útgönguleiðum og yfirgaf hann eftir hádegið. Býð honum kannski í rannsóknarleiðangur í bílskúrinn á eftir.
Það er svo ljúft að blogga blogg
er blíðan tekur völdin.
Ágætt líka að ybba gogg
einkanlega á kvöldin.
Með sólskinskveðju, ykkar Hösmagi.
Monday, July 18, 2005
Uppstytta.
Glaða sólskin og 15,3 gráður. Glaðnaði vel til eftir hádegi í gær eftir rigningu laugardagsins. Hinn rómaði 3ja stangadagur byrjaði prýðilega. Þurrt og gott veður og 5 fiskar. Síðari hlutinn koðnaði niður í rigningu og hinir fræknu feðgar gáfust upp um sjöleytið. Þetta var þó hinn ánægjulegasti dagur. Í hléinu stórborgari og pitsa í Pakkhúsinu og eftir átið skemmti Raikonen með sínum hætti. Hefur nokkuð góðar bremsur en vantar spólvörn. Í gær var veiðidagur fjölskyldunnar í Ölfusá. Illa auglýstur að þessu sinni og því fáir gestir. Kom við á Miðsvæðinu seinni partinn og tókst að krækja í einn. Á Æskrím étur hann. Hygg svo gott til glóðarinnar á miðvikudaginn. Reyni að fá smáfrí frá þrældómnum. Enn vonast undirritaður eftir góðum ágúst. Veiðivötnin með sínum dásemdum. Verður væntanlega 4. ferð Grána þangað á þessu sumri. En það er samt svo, að hvernig sem viðrar þá er sumarið of fljótt að líða. Og það er líkt og tíminn herði á sér eftir því sem árin líða. Það gerir þó ekkert til meðan lífið er skemmtilegt og heilsan í góðu lagi. Sjóbirtingur á borðum þeirra Raikonens og Hösmaga í kvöld. Og kartöflur smjör og tómatar. Reikna þó með að Konni haldi sig eingöngu við fiskinn. Hann er nú að byrja á skoðun alheimsins. Ekki mjög stór enn. Svalagangurinn framan á blokkinni. Gef honum betri tíma þegar um hægist í útiveru og veiðiskap. Nóg að sinni, ykkar Hösmagi.
Friday, July 15, 2005
Eftirvænting Fiskihrellis.
Rignir hann eða rignir hann ekki ? Mogginn á það nú til að ljúgja. Horfur eru annars nokkuð góðar fyrir morgundaginn þó rigna kunni eldi og brennisteini. Það má hundur heita Sigurður ef ég drep ekki lax á morgun. 7 lágu á miðvikudaginn og 9 í gær. Bunkum honum upp á morgun. Allt að verða klárt, maðkur, túpa, spónn og hið margfræga sænska bláa Höggbúmm. Kominn tími á að gefa því séns eftir áralanga hvíld. Styttist í vinnuvikunni og það verður unaðslegt að slökkva á tölvuskrattanum kl. 5. Beint niður að á að leita frétta og síðan rólegheit með Raikonen. Hösmagi með hugann við marga laxa.
Wednesday, July 13, 2005
Kisi malar.
Líklega er alveg tilgangslaust að blogga um þessar mundir. Hásumar ef sumar skyldi kalla og fólk að hneppa öðrum hnöppum. Meira en mánuður síðan ég hef fengið comment á bloggið. Kannski er það bara mitt eigið andleysi sem veldur. Lífið heldur að sjálfsögðu sínu striki. Þræla fyrir kapitalistana, sef, veiði og elska köttinn minn svolítið. Raikonen vekur mig þó yfirleitt of snemma. Kannski er hann að vinna sér upp fjarveru mína á daginn. Ég hef aldrei vitað kött mala meira en hann. Stundum látlaust í hálftíma. Líður varla illa á meðan. Mikið vildi ég kunna að mala. Og hvæsa og urra þegar samferðamenn mínir eru fúlir og leiðinlegir. Þeir eru það nú fæstir sem betur fer og maður reynir bara að sneiða hjá þeim. Hitti Magga og Egil í gær. Kátir og hressir eftir Veiðivatnaferð. Fengu þokkalegt veður og 16 fiska. Á Moggavefnum er rigningin á laugardag horfin. Skýjað og 11 stig. Eigum við ekki að segja það gott veiðiveður. 5 laxar voru dregnir úr ánni í gær svo þetta er á réttri leið. Hlakka til að hafa báða gaurana mína með mér. Og ef einhver óskar manni góðs gengis á alls ekki að segja góða veiði heldur foi, foi. Hösmagi, harður í horn að taka.
Tuesday, July 12, 2005
Óhlýðni.
Laxinn vill stundum alls ekki hlýða mér. Neitar að taka þó ég gefi honum bein fyrirmæli um það. Í gjóluskrattanum í gær margítrekaði ég skipanir mínar. Og það sannaðist að stundum uppskera menn laun þolinmæðinnar. Hef yfirleitt nóg af henni þó stundum geti biðin orðið löng og ströng. Hafði pata af laxi á ákveðnum stað í ánni. Fékk hann loks til að hnusa af ánamaðkinum. En skratti var snjallari mér. Fékk þó hjartað til að slá örar og herti mig í þeim einlæga ásetningi að spilla honum. Þrisvar varð ég var við hann. En hann sleppti þessum gómsæta ánamaðki frá sér jafnoft. Það var farið að síga í mig. Og komin upp í mér þrjóska og þrákelkni. Eftir um 5 klukkustunda streð, puð og basl gat ég loks rennt agninu ofaní skrattakoll. Og þar með var puðið launað. Glaður Laxaspillir kom heim um tíuleytið með feng sinn. Lax og sjóbirting að auki. Sem sagt fiskiveisla í kvöld.
Aðeins sá til sólar í morgun en skýin hafa aftur náð yfirhöndinni. Líklega hafa Maggi og synir ekki verið heppnir með veður inná hálendinu. Hitti þá reyndar þegar líður á daginn og við skiptum aftur um bíla. Nú söfnum við bara kröftum fyrir átök laugardagsins. Særum vonandi upp fiska úr undirdjúpunum. Þokkafullar silfraðar verur. Hösmagi, vonglaður á virkum degi.
Aðeins sá til sólar í morgun en skýin hafa aftur náð yfirhöndinni. Líklega hafa Maggi og synir ekki verið heppnir með veður inná hálendinu. Hitti þá reyndar þegar líður á daginn og við skiptum aftur um bíla. Nú söfnum við bara kröftum fyrir átök laugardagsins. Særum vonandi upp fiska úr undirdjúpunum. Þokkafullar silfraðar verur. Hösmagi, vonglaður á virkum degi.
Monday, July 11, 2005
Dimmviðri og slen.
11. júli. Rigning og 10 stig. Kemur sumarið? Verður kannski jafnhlýtt í ágúst eins 2004. 28°í Veiðivötnum 12. ágúst. Veiði í Ölfusá aðeins 37 laxar frá opnun 20. júní. Tókst að krækja í einn í gær. Það er spáð björtu veðri þegar líður á vikuna en aftur rigning á laugardaginn. Á hinum rómaða 3ja stanga degi. Breytist vonandi. Rólegt í vinnunni í dag. Svona til tilbreytingar. Maggi og synir í Veiðivötnum á Grána. Hef BMW á meðan. Er semsagt að blogga á fullu kaupi. Líklega ekki gott til afspurnar. Hef þó engan móral yfir þessu. Hyggst hætta kl. 15 í dag og halda á vit árinnar þó veiði sé dræm. Því það sem aldrei hefur komið fyrir áður getur alltaf komið fyrir aftur. Raikonen biður að heilsa. Hösmagi, hugsi yfir tilverunni.
Friday, July 08, 2005
Kettir, laxar og rigning.
Nokkuð um liðið síðan síðast. Mikið um brauð og leiki og lítill tími til bloggiðjunnar. Kötturinn Raikonen orðinn til heimilis að Ástjörn 7. Þarf athygli og er forvitinn. Heldur líka stundum vöku fyrir undirrituðum um nætur. Búinn að afreka ýmislegt. Tæta heila skeinirúllu í öreindir sínar, dreifa mold úr blómapotti um alla stofu og stökkva ofan í klósettið. Ótrúlega snöggur uppúr því aftur. Líkt og þegar hinn finnski nafni hans gefur vel í drógina. Og því veður ekki neitað að kisi lífgar andrúmsloftið í Ástjörninni. Undirritaður hefur nú landað 5 löxum úr Ölfusá á þessu sumri. Og vænum sjóbirtingi að auki. Var að veiðum með skáldinu mínu í gær. Ótrúlega leiðinlegt veður síðdegis. Skáldið lét sig hafa þetta til 10 en undirritaður var flúinn heim og undir sæng. Það var betra veður í morgun og ég hóf tilraunir klukkan 7. Skáldið þá rænulaust heima. Það tók svo við af mér um tíuleytið og ég hélt til vinnu. Gætti að aflabrögðum kl. 13 og viti menn. Skáldið eitt sólskinsbros í rigningunni og rokinu með fallegan lax á bakkanum. Og agnið? Æskrím étur hann að sjálfsögðu. Svo styttist í hinn rómaða 3ja stanga dag, laugardaginn 16. Hef þá bæði skáldið og lyfjabyrlarann með mér. Verst að geta ekki haft Raikonen með okkur.
Líklega er mér að hefnast fyrir að tauta út í nafna minn. Um íslenska sumarið. Það hefur verið húfu og vettlingaveður að undanförnu. Og rigningin voðalega blaut í gær. Reynslan hefur sýnt að ég veiði best í sól og blíðu. Læt þó ekki deigan síga og held út í rokið eftir vinnu. Svo verð ég bara í fríi á morgun. En stíf törn á sunnudag og mánudag. Og alltaf jafnbjartsýnn og staðráðinn í að rótonum upp. Sæl að sinni, ykkar Hösmagi.
Líklega er mér að hefnast fyrir að tauta út í nafna minn. Um íslenska sumarið. Það hefur verið húfu og vettlingaveður að undanförnu. Og rigningin voðalega blaut í gær. Reynslan hefur sýnt að ég veiði best í sól og blíðu. Læt þó ekki deigan síga og held út í rokið eftir vinnu. Svo verð ég bara í fríi á morgun. En stíf törn á sunnudag og mánudag. Og alltaf jafnbjartsýnn og staðráðinn í að rótonum upp. Sæl að sinni, ykkar Hösmagi.