Tuesday, July 26, 2005
Sumarfrí.
Fiskihrellir ætlar í sumarfrí að loknum þessum vinnudegi. Næ þannig 6 dögum þegar verslunarmannhelgin er meðtalin. Ætla að halda mig mestmegnis á bökkum Ölfusár þessa þrjá virku daga sem eftir lifa vikunnar. Áin er nú ekki sérlega fallega þess heitu og sólríku daga. Yfir 20 gráður hvern dag og mikil sólbráð á Langjökli. En það verður samt indælt að þjóna veiðieðlinu þessa daga. Alltaf von í fiski þó vatnið sé nokkuð litað.Í gærkvöldi höfðu veiðst 119 laxar á stöng úr ánni. Ekki svo slæmt miðað við undanfarin ár, en þó ekki svipur hjá sjón miðað við hina gömlu, góðu daga. Við skáldið höfum landað 16 löxum sem eru líklega nálægt 13,4% aflans. Svo við erum bara nokkuð góðir. Auðvitað stendur hugurinn til frekari afreka en kylfa verður að ráða kasti. Allavega hlakka ég til að yfirgefa kontórinn klukkan 5. Byrja þá á að viðra Raikonen. Hann hefur reyndar orðið aðgang að svölunum og unir því nokkuð vel. Samt lítill heimur og voða gaman að þeytast eftir svalaganginum. Og fara í stutta leiðangra með félaga sínum Baltasar. Fóstri stutt undan og gott að hafa hann nærri. Þó allir kettir sem ég hef kynnst hafi verið sólgnir í harðfisk þá held ég að Raikonen slái öll fyrri met í þeim efnum. Fer orðið reglulega í Bónus eftir nýjum birgðum. Erum yfirleitt fljótir með hvern poka. Sólarkveðjur, Hösmagi.