Tuesday, July 12, 2005

 

Óhlýðni.

Laxinn vill stundum alls ekki hlýða mér. Neitar að taka þó ég gefi honum bein fyrirmæli um það. Í gjóluskrattanum í gær margítrekaði ég skipanir mínar. Og það sannaðist að stundum uppskera menn laun þolinmæðinnar. Hef yfirleitt nóg af henni þó stundum geti biðin orðið löng og ströng. Hafði pata af laxi á ákveðnum stað í ánni. Fékk hann loks til að hnusa af ánamaðkinum. En skratti var snjallari mér. Fékk þó hjartað til að slá örar og herti mig í þeim einlæga ásetningi að spilla honum. Þrisvar varð ég var við hann. En hann sleppti þessum gómsæta ánamaðki frá sér jafnoft. Það var farið að síga í mig. Og komin upp í mér þrjóska og þrákelkni. Eftir um 5 klukkustunda streð, puð og basl gat ég loks rennt agninu ofaní skrattakoll. Og þar með var puðið launað. Glaður Laxaspillir kom heim um tíuleytið með feng sinn. Lax og sjóbirting að auki. Sem sagt fiskiveisla í kvöld.
Aðeins sá til sólar í morgun en skýin hafa aftur náð yfirhöndinni. Líklega hafa Maggi og synir ekki verið heppnir með veður inná hálendinu. Hitti þá reyndar þegar líður á daginn og við skiptum aftur um bíla. Nú söfnum við bara kröftum fyrir átök laugardagsins. Særum vonandi upp fiska úr undirdjúpunum. Þokkafullar silfraðar verur. Hösmagi, vonglaður á virkum degi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online