Thursday, July 21, 2005
Hunter eða sportveiðimaður?
Stundum hef ég flokkað stangveiðimenn í sportveiðimenn og huntera eða drápara. Talið mig til þeirra fyrrnefndu. En stundum efast ég um að þetta sé rétt. Ég var kominn á árbakkann löngu fyrir 7 í gærmorgun. Svolítið hráslagalegt eftir heitan dag í fyrradag. Þokuslæðingur og áttleysa. En ég sá til fiska í ánni. Svo hófust veiðitilraunir kl 7. Fljótlega hafði ég sett í fisk. Hann hrækti þó agninu út úr sér fljótlega. Hálftíma síðar fór svo annar að rjála við ánamaðkinn. Bauð honum í morgunverð í huganum. Og hann renndi hreinlega maðkinum niður í maga. Silfurgljándi 7 punda hængur lá skömmu síðar á bakkanum. Góð byrjun á deginum og nú fór að létta til. Ég og veiðifélagar mínir sáum nokkuð marga laxa á morgunvaktinni en þeir voru flestir utan kastfæris í þessari jafnvatnsmestu á landsins. Við áttum þó góða útiveru út vaktina þó ekki veiddist meira. Ég kom við á skrifstofunni enda virðist heimsendir á næsta leiti ef ég þarf að yfirgefa kontórinn í miðri viku. Slapp þó að mestu þó ég þyrfti að ganga frá einu kauptilboði.Hélt svo á efra svæði árinnar rétt fyrir 4. Byrjaði með túpuna uppá Miðsvæði án árangurs og hélt á minn gamla, góða stað, Klettsvíkina. Þessi veiðistaður er líka stundum kallaður Lögmannshlíð. Læt ykkur um að giska á hversvegna. Ekkert gerðist fyrst í stað. Skyndilega, rétt fyrir 5 hljóp laxinn á og var háfnum fljótlega komið undir hann. Eftir 10 mínútur stóðst annar ekki mátið. Líkaði ekki við matinn og hrækti honum út úr sér. Korteri síðar kom sá 3ji og var bara hæstánægður með þetta veisluborð. Og hans biðu sömu örlög. Laxaspillir einhenti háfinn undir hann. Rétt fyrir 6 var enn matgæðingur á ferð í undirdjúpunum. Þá lágu 3 silfraðir hlið við hlið á bakkanum. Og hinn afburðageðprúði sportveiðimaður hafði nú skyndilega breyst í hunter. Nú var markmiðið orðið eitt: Að drepa fleiri laxa. Bunka þeim upp. Eins og þegar minkurinn drepur allar hænurnar í kofanum og raðar þeim snyrtilega upp eftir morðin. En þetta rann fljótt af. Ég sagði veiðifélaga mínum, sem aldrei fyrr hafði veitt í ánni að nú skyldi hann taka við staðnum. Og útlistaði fyrir honum eftir bestu getu hvernig bregðast skyldi við. Lét honum eftir háfinn, hélt á brott með stöng mína og feng. Svo gerðist hreinlega ekkert meira. Nema við nutum allir útiverunnar og góða veðursins. En það var nú nokkuð drjúgur Fiskihrellir sem bókaði afla sinn í veiðikofanum kl. 10 og hélt heim með 3 gjörspillta laxa til viðbótar við morgunfiskinn. Og Raikonen aldeilis undrandi á þessu öllu saman. Yndislegt bara, ykkar Hösi.