Monday, July 18, 2005

 

Uppstytta.

Glaða sólskin og 15,3 gráður. Glaðnaði vel til eftir hádegi í gær eftir rigningu laugardagsins. Hinn rómaði 3ja stangadagur byrjaði prýðilega. Þurrt og gott veður og 5 fiskar. Síðari hlutinn koðnaði niður í rigningu og hinir fræknu feðgar gáfust upp um sjöleytið. Þetta var þó hinn ánægjulegasti dagur. Í hléinu stórborgari og pitsa í Pakkhúsinu og eftir átið skemmti Raikonen með sínum hætti. Hefur nokkuð góðar bremsur en vantar spólvörn. Í gær var veiðidagur fjölskyldunnar í Ölfusá. Illa auglýstur að þessu sinni og því fáir gestir. Kom við á Miðsvæðinu seinni partinn og tókst að krækja í einn. Á Æskrím étur hann. Hygg svo gott til glóðarinnar á miðvikudaginn. Reyni að fá smáfrí frá þrældómnum. Enn vonast undirritaður eftir góðum ágúst. Veiðivötnin með sínum dásemdum. Verður væntanlega 4. ferð Grána þangað á þessu sumri. En það er samt svo, að hvernig sem viðrar þá er sumarið of fljótt að líða. Og það er líkt og tíminn herði á sér eftir því sem árin líða. Það gerir þó ekkert til meðan lífið er skemmtilegt og heilsan í góðu lagi. Sjóbirtingur á borðum þeirra Raikonens og Hösmaga í kvöld. Og kartöflur smjör og tómatar. Reikna þó með að Konni haldi sig eingöngu við fiskinn. Hann er nú að byrja á skoðun alheimsins. Ekki mjög stór enn. Svalagangurinn framan á blokkinni. Gef honum betri tíma þegar um hægist í útiveru og veiðiskap. Nóg að sinni, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online