Sunday, May 17, 2009

 

Hlýja.

Í pistlinum um hina dularfullu hljómkviðu var ég að óska eftir 15° til viðbótar hitastiginu. Nú hefur draumurinn rætst og hitinn er nú nákvæmlega 18,2 gráður. Laufin hellast á trén og allt grænkar. Þessi dularfulla hljómkviða reyndist vera júróvísjón lag eins og mér datt í hug. Þetta var lagið sem keppti um annað sætið við lagið hennar Jóhönnu. Lag Azerbaijan, always in my mind. Það hljómar annað slagið í hausnum á mér. Það hverfur út í eterinn bráðum eins og flest lögin. Eitt og eitt lifir og verður klassík eins og Bítlarnir. Þegar ég var að strjúka grænu þrumunni framan við bílskúrinn áðan renndi til mín veiðimaður sem ég þekki. Ég minntist á stórurriðann sem veiddist í Þingvallavatni um daginn. Hann sagði mérað stórurriðinn væri orðinn eitraður af kvikasilfri. Kvikasilfri frá virkjunum á Hellisheiði. Illt ef satt reynist. Sýnir enn og aftur hvað við þurfum að fara varlega í náttúrunni. Við eigum auðvitað að nýta okkar auðlindir. En það er viturlegra að hugsa áður en framkvæmt er. Það er ömurlegt til þess að hugsa að fyrir 50 árum tókst hérumbil að útrýma þessum urriða með eitri. Eitrið var notað á mývarginn sem var uppistaðan í fæðu urriðans. Nú er eitrunin af öðrum toga en samt af mannavöldum. Eftir nokkur ár, sennilega bara örfá, verður óbeislaða orkan í vatnsföllum okkar orðin margfalt verðmætari en nú. Olían gengur til þurrðar að lokum. Þessvegna eigum við alls ekki að byggja fleiri álver. Álver í eigu útlendra auðhringa sem fá rafmagnið okkar á gjafverði og flytja mestallan arðinn úr landi. Auk þess skilja þeir eftir sviðna jörð í löndunum sem afla þeim súrálsins.Það er eðli auðhringa að hámarka gróða sinn og þeim er nákvæmlega sama um allt annað. Nú heimtar bæjarstjórinn í Reykjanesbæ nýtt álver þar. Þessi náfrændi þjófsins sem nú situr á þingi fyrir okkur sunnlendinga er maður einkaframtaksins. Framtaksins, sem nú hefur gert þennan bæ að skuldsettasta sveitarfélagi landsins. Hann hefur selt nánast allt sem hægt er að selja. Vinum sínum húsnæði bæjarins og leigir svo þetta sama húsnæði af þeim. Atvinnuleysi er helmingi meira þar en annarsstaðar. Þetta er nú aldeilis vitnisburður um góða stjórn. Enda var þessi bæjarstjóri lengi aðalsprautan hjá Stjórnunarfélagi Íslands. Nóg um þennan bæjarstjóra að sinni.
Kimi sefur. Glugginn var opinn í nótt og kauði var á næturgöltri meðan fóstri svaf svefni hins réttláta. Ég vona það a.m.k. Nú eru 2 dagar í þann gula og sex vikur í laxinn. Silungurinn kemur svo í millitíðinni og inná milli í sumar. Brauð og leikir þrátt fyrir kreppu. Stundum verð ég hugsi yfir duttlungum tilverunnar. Tilviljunum að því er virðist en þó býr alltaf eitthvað undir. Lífið heldur áfram og mér finnst enn afar vænt um það. Bjartsýnismaður verður seint kveðinn í kútinn. Bestu kveðjur frá okkur Dýra, ykkar Hösmagi.

Comments:
Hef einmitt heyrt þetta með urriðan, einkum að hann sé óætur af þessum sökum. Hvort stofninn getur lifað með þessu veit ég hins vegar ekki. Dapurlegt að um leið og þessi stórfiskur nær sér á strik skuli vegið að honum að nýju.

Hvað um það, bestu kveðjur í veðurblíðuna á Selfossi, Sössi Bjössi
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online