Sunday, May 03, 2009

 

Gamalmenni.

Á afmælinu mínu um daginn talaði ég um að telja niður í löggildinguna, 67 ára aldurinn. Nú er 671 dagur eftir. En ég er nú þegar byrjaður að njóta arðs af aldrinum. Þann 1. maí barst mér lífeyrir frá greiðslustofu lífeyrissjóða. Þetta eru svosem ekki miklir peningar en samt meira en ég bjóst við. Góðir með hinum aurunum.Við Kimi komumst af sem stendur. Afturhaldskommatittirnir sjálfir.Nóg að éta, birtan að aukast og bráðum eykst græni liturinn. Ekki hef ég nú enn séð hann vaka í Ölfusá. Ég ætla að kaupa mér veiðikortið á morgun. Reyna fyrir mér í Þingvallavatni einn fallegan morgunn í maí. Þá hugsa ég um eitthvað fallegt og gott og læt pólitíkina eiga sig. Ef ekkert breytist þar á næstunni mun ég aldrei kjósa aftur. Þessu þrátefli verður að linna. Ef vinstri flokkarnir geta ekki komið sér saman um hvað gera skuli verður að reyna einhverjar aðrar leiðir. Þessi sjálfhelda er öllum til tjóns. Stýrivextir eru enn 15.5%. Martröð venjulegra heimila heldur áfram. Atvinnuleysið alltof mikið. Margir stjórnmálamenn eru þó í algjörri afneitun.Þeir eru til í öllum flokkum. Heiðbláir íhaldsmenn, aturhaldskommar og allt þar á milli. Kannski verðum við að kjósa á ný. Þá gætum við sett upp ESB mæli í leiðinni. Ég segi bara eins og Steingrímur Hermannsson forðum: Ég hef áhyggjur af þessu, ég verð að segja það.
Gráminn sem var efst í Ingólfsfjalli í morgun er horfinn og hitinn kominn í 7 gráður.Nánast logn og sólin brýst gegnum skýin annað slagið. Það verður ágætt að bregða sér uppí Haukadal í dag. Kannski sé ég lækjarlontu í læknum sem rennur í gegnum skóginn. Herconinn verður þó ekki meðferðis í dag. Hans tími mun þó koma eins og hjá fleirum. Ég er bjartsýnn á strengdar línur. Enn hlakka ég til Veiðivatnanna eins og smástrákur. Hefðbundna túrsins í ágúst, skottúrs með skáldinu mínu og ef til vill 3ju ferðarinnar í öðrum góðum félagsskap. Við eigum landið okkar enn þó þjóðin sé á heljarþröm. Arkitektarnir, draugurinn og yfirnagarinn, hafa engar áhyggjur. Við skulum aldrei fyrirgefa þeim gerðir þeirra.
Ég vona að þið njótið þessa ágæta sunnudags. Kimi var að birtast úr rannsóknarleiðandri og er nú með trýnið í sjófrystu ýsunni sem ég eldaði í gærkvöldi.Við sendum bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online