Friday, May 22, 2009

 

Þorskur.

Við Maggi fórum á sjó á þriðjudaginn var. Það var sól og blíða og frekar fámennt en góðmennt um borð. Við drógum bæði þorsk og ufsa úr hafdjúpunum. Ég held að við höfum fengið 13 fiska. Hvað annað? Þetta var indælis túr og nú er ég kominn á bragðið. Það var bara gerfibeita á færinu. Rauðar, grænar og gular plastlufsur við krókana.Næst þegar ég fer á sjó ætla ég með niðurskorinn makríl eða síld með mér. Ég át þverskorinn þorsk í gær. Kartöflur og smjér með og varð ákaflega gott af. Við Maggi höfðum fyrrverandi ráðherra á milli okkar við dráttinn. Framsóknarkonuna Siv Friðleifsdóttur. Hún er greinilega þaulvön skakinu og var hin ljúfasta í viðmóti og tali. Eftir nokkurn tíma sá hún að fiskarnir tóku gulu lufsuna fram yfir þá rauðu. Hún var með rauða og græna lufsu og það var því eðlilegt að skipta um. Ég sagði að hún veiddi ekkert á vinstrigræna gerfibeitu. Hún svaraði fáu og ég áttaði mig fljótlega á að fammararnir eru hrifnir af græna litnum. Þetta var semsagt skemmtileg tilbreyting en auðvitað tapaði ég þeim stóra. Ég vissi aldrei hvað var á króknum því ferlíkið losnaði af áður en ég næði að sjá það. Næst kræki ég í steinbít og stórlúðu. Ekki nokkur spurning. Það hefur verið dásemdarveður hér undanfarna daga. Bjart yfir og vel hlýtt. Spáir rigningu um helgina og ég drattast þá kannski við að ljúka ýmsum verkum hér heimafyrir. Nú er rúmur mánuðir í laxinn og þeir eru farnir að sjá hann í Laxá í Kjós. Ölfusá tær og falleg þessa dagana og ég hygg gott til glóðarinnar. Það er ró og friður hér og Kimi lúrir í gamla tágastólnum. Það er vorhugur í okkur báðum. Hann hefur nú látið af fuglaveiðum, a.m.k. í bili. Ég las honum pistilinn í hittafyrra og þetta er skynsamur og tillitssamur köttur. Skilur ýmislegt og finnst vænt um fóstra sinn. Það er gagnkvæmt. Bestu kveðjur frá báðum, ykkar Hösmagi.

Comments:
Eitthvað var mig að dreyma um mikla veiði í Ölfusá í nótt og var áin þó vel lituð. Gaman að heyra annars að túrinn hafi verið skemmtilegur og gjöfull. Bestu kveðjur á Selfoss, Sössi Bjössi
 
Guten Tag.
Hva, er bara megabloggfrí hjá Hösmaga? Þýðir ekkert að fara í frí þótt að Skallagrímur sé ekki að gera góða hluti.
Verð að setja smá spurningarmerki við setninguna "Við Maggi höfðum fyrrverandi ráðherra á milli okkar við dráttinn". Hægt að misskilja með skítugum hugsunargangi.
En svona er þetta bara hjá okkur, nennum ekki á sjóinn nema það sé a.m.k. fyrrverandi ráðherra um borð til að leysa af krókunum fyrir okkur.
Vona að þessi stóri sem þú skildir eftir í Faxaflóanum sé ekki að halda fyrir þér vöku. Tökum hann næst.
 
Ritsnilld mín er alkunn og hlaut að koma að því að einhver kvartaði yfir bloggleti.Saurugar hugsanir eru mér líka framandi. Það er líka voða ljótt að gantast með þrælgifta frú. Hinsvegar hef ég veiðilyfi en þú ert á samningi Magnús minn. Það kom hér alvanur sjóari um daginn og eftir að ég sagði honum frá drellinun fullyrti hann að þetta hefði verið lúða. Ég mun halda því fram eftirleiðis og byrja í 30 kílóum. Það má nú ekki kenna Grími garminum um allt. Hinsvegar er ég ekki stuðningsmaður núverandi ríkisstjórnar. Sömu voluðu úrræðin og áður.Engin ný sýn og ef ekkert gerist munu nánast allir hætta að greiða af húsnæðislánunum og allt fer til andskotans. Ég býst líka við að kjósa íhaldið í næstu bæjarstjórnarkosningum eftir ömurleg verk núverandi meirihluta með snillingin vinstrigrænjón í fararbroddi. O tempora o mores.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online