Friday, May 01, 2009

 

Fjallagrasakórinn.

Það væru öfugmæli að segja að eldri sonur minn væri merktur pabbapólitíkinni. Það er gott í sjálfu sér. Fólk á að mynda sér skoðanir sjálft og þora að standa við þær. Honum er að sjálfsögðu heimilt að hafa sömu skoðanir á vinstri grænum og Hannes Hólmsteinn, Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Ekki vildi ég ylja mér við að deila skoðunum með þessum herrum. Reyndar eru skoðanabræðurnir miklu fleiri. Útrásarvíkingarnir t.d. Glæpalýðurinn sem kom landinu á hausinn á meðan við vinstri græn tíndum fjallagrös eftir að hafa beðið sumarlangt eftir að þau yrðu þroskuð.Þau næmustu okkar hlustuðu líka á grasið gróa eins og Heimdallur forðum. Við erum baráttuglöð og sífellt fleiri styðja þennan "afturhaldsflokk dauðans". Ef einhverjir eru saklausir af því hvernig komið er fyrir þjóðinni nú erum það við. Flest okkar hafa heldur ekki tekið ESB veiruna sem nú hefur heltekið samfylkinguna svo mjög að ekkert annað kemst að. SF ætlar sér að koma okkur í ESB hvað sem tautar og raular.Með þetta markmið fékk hún minna fylgi nú en 2003 þrátt fyrir að hafa innlimað Íslandshreyfinguna í heilu lagi. Rúmlega 13.000 manns hafa skrifað undir á sammála.is Gegndarlaus áróður fyrir undirskriftum hefur skilað 7% kosningabærra manna á þennan undirskriftalista. Þetta mál er nú þjóðarböl og engin önnur lausn en að lofa þjóðinni að kjósa um það. Það liggur fyrir að við fáum engar undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni. Spánverjar, Belgar, Þjóðverjar, Frakkar og Bretar bíða með öndina í hálsinum eftir að komast í landhelgi Íslands. Það er heldur ekkert skrýtið því þeir hafa nú þegar nær þurrausið öll fiskimið sem ESB hefur ráð yfir. Ég kæri mig ekki um þessar þjóðir inn í okkar landhelgi. SF og VG hafa báðir lagt drög að endurheimt kvótans. Því miður verður aldrei hægt að endurheimta alla milljarðana sem gjafþegar kvótans hafa dregið út úr þessari atvinnugrein. Peningar sem liggja m.a. í glæsilegustu sumarhúsunum í Grímsnesinu og lúxusvillum í BNA. Það er t.d. helvíti flott hjá einum sem stjórnar hitastiginu í sumarhöllinni í Grímnesinum með fjarstýringu úr villunni í Bandaríkjunum. Þetta getur hann af því að hann seldi hluta af kvótanum " sínum". Þetta er auðvitað ekkert annað en hið eina afturhald dauðans. Afturhald sem við vinstri græn viljum brjóta á bak aftur. Við viljum líka hætta við að gefa rafmagnið okkar. Koma í veg fyrir að Guðni bakari sjái sér hag í því að baka með orku frá olíuofnum. Virkja á skynsamlegri hátt en við höfum gert hin síðustu ár og fjölga körfunum fyrir eggin. Skjalfesta þjóðareign á öllum auðlindum í stjórnarskrá.Það var líka maklegt að umhverfisráðherrann féll af þingi í kosningunum. Það sýnir að bjálfasjónarmið um rannsóknir á Drekasvæðinu fengu ekki hljómgrunn. Kannski verð ég alltaf óalandi og óferjandi í pólitíkinni. Ég tel mig þó ávallt hafa verið sjálfum mér samkvæmur. M.a. baðst ég afsökunar á að hafa kosið VG í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Ég vil ekki fólk sem villir á sér heimildir. Bókstafirnir eru orðnir nokkuð margir hjá mér. G, H, I, M,U, V og Z. Það er illt til þess að vita að SF og VG eru að klúðra úrslitum kosninganna. Það bendir a.m.k. allt til þess. Við eigum á brattann að sækja vegna fádæma óstjórnar landsins undanfarin ár. Og það gengur hægt að gera upp við þá sem alla ábyrgð bera á núverandi ástandi. Þetta er nú hin pólitíska sýn mín á verkalýðsdeginum 1. maí 2009. Gamli afturhaldsseggurinn er enn við sama heygarðshornið. Kannski bætist svo nýr bókstafur við í næstu sveitarstjórnarkosningum?
Það er afar friðsælt hér. Kimi lúrir í stofunni og hugsar ekki um pólitík. Ég er á síðustu tárunum af kaffi morgunsins. Sannarlega held ég ró minni yfir skoðunum barna minna í pólitíkinni. Ást mín á þeim væri söm þó þau kysu öll íhaldið. Ég hef heldur aldrei valið mér vini eftir pólitískum skoðunum þeirra. Það væri líka andstætt heilbrigðri skynsemi. Einu sinni var ég studiosus juris. Ég sá afar skondna lýsingu á fyrirbærinu laganemi á vefnum í gær: Laganemi er illmenni í þjálfun. Ég held nú samt að ég sé enn voða góður strákur. Kannski að ég sé bara illmenni inn við beinið?
Allra bestu kveðjur frá rauðgrænu vinunum í Ástjörn 7, ykkar Hösmagi.

Comments:
Hef stundum tekið upp á því að segja sjöllum skoðun mína á þeim flokki. Hef oft verið kallaður kommi til baka. Virkilega eitthvað til að hlæja að.
Það að vera kallaður skoðanabróðir hannesar og davíðs fyrir gagnrýni á VG finnst mér sami hluturinn. Eitthvað til að hlæja að.
 
Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online