Monday, May 18, 2009

 

Ömurð.

Ég fylgdist með stefnuræðu Jóhönnu og umræðum um hana í gærkvöldi. Ég óttast að þessi ríkisstjórn sé feig. Ég varð fyrir vonbrigðum með Jóhönnu. Kannski var ekki við neinu að búast. Ekki orð um neinar raunhæfar lausnir á vanda þjóðarinnar. Og reyndar engin stefna í efnahagsmálum. Ef fram fer sem horfir eigum við að borga allar skuldir útrásarvíkinganna með vöxtum og vaxtavöxtum. Það mun taka okkur, börnin okkar og barnabörn marga áratugi. Mestur hluti ræðunnar fór í að mæra Evrópusambandið. Þar er allt umvafið rósrauðum skýjum. Með umsókninni einni erum við búin að leysa hálfan vandann og þegar við verðum komin inn er allt í blóma hér. Við munum stjórna fiskveiðistefnu ESB, vextir við núllið og verðbólga engin.Það er eins og Jóhönnu sé algjörlega hulið að þjóðin er þverklofin í málinu. Bloggvinkona mín á Moggablogginu, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, varð að benda forsætisráðherranum á að það eru 2 flokkar í ríkisstjórninni. Yngsti þingmaðurinn, Dalabóndinn Ásmundur Daðason, líka bloggvinur minn, tók í sama streng. Það er skelfilegt að hugsa til þess að meirihlutastjórn vinstriflokkanna skuli fara af stað með þessum hætti. Allt bendir nú til þess að þingsályktunartillagan um aðildarumsókn verði felld í þinginu. Það væri miklu nær að leggja málið í dóm þjóðarinnar strax. Ef þingsályktunartillagan yrði samþykkt, sem litlar líkur eru á, myndi allur krafturinn fara í þær. Kraftur, sem við verðum að nota í allt aðra hluti. Einstefna og hroki samfylkingarinnar geta reynst okkur dýr ef ekkert breytist frá því í gærkvöldi. Ég er alls ekki að halda því fram að allt sé glatað þó við sækjum um. En það er fáránlegt að ætla sér að reyna að telja fólki trú um að allt leysist ef við göngum í ESB. Matur á spottprís og efnahagsmálin leyst til framtíðar. Hið sögulega tækifæri er að renna okkur úr greipum. Ég óttaðist það reyndar löngu fyrir kosningar. Það var alveg ljóst í mínum augum að flokkarnir gátu ekki náð saman í ESB málinu. Til þess hefði annarhvor flokkurinn þurft að byrja á að svíkja kosningaloforð sín. Það er ekki gæfulegt upphaf ríkisstjórnar að taka fyrstu skref sín þverklofin í jafn stóru máli og ESB málið er. Láta það velta á afstöðu annara flokka hvert framhaldið verður.Því miður verður líkleg niðurstaða af ESB trúboði SF að þessi stjórn andist langt fyrir aldur fram. ESB málið var bara eitt af mörgum kosningamálum síðustu kosninga og engin afgerandi niðurstaða kom fram.Flokkarnir 2 sem höfðu sérstaklega gert ályktanir um að við værum betur sett utan ESB fengu 30 þingmenn og eini flokkurinn sem lagði mikla áherslu á aðild fékk 20 þingmenn. Framsókn opin í báða enda að venju.Eina raunhæfa lausnin eins og nú er komið er að gefa þjóðinni kost á að ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort sækja skuli um aðild eða ekki. Í þeirri kosningu er ekkert annað undir. Ekkert uppgjör í flokkapólitíkinni. Þá verður friður til að ráðast af fullum krafti í uppbyggingu að nýju. Það mun takast ef þjóðin stendur saman og nýtir sameiginlega krafta sína til þess.
Ég ætla á sjó seinnipartinn í dag og hlakka til. Sólin komin hátt á loft. Það er þó talsverð gjóla og ég vona svo sannarlega að það lægi. Ég hef ekki oft komið á sjó en nógu oft til að verða bullandi sjóveikur. Það er hrein andstyggð og það bara má ekki skemma fyrir mér þessa skemmtilegu tilbreytingu. Ég fór á bókasafnið í gær og rakst þar á stóru brandarabókina. Las fyrsta brandarann og fannst hann góður. Nú er ég búinn með 50 síður og enn er bara þessi fyrsti þess virði að lesa hann. Hann er um hárskerann sem var að klippa prest. Þegar hann var búinn vildi hann ekki taka greiðslu fyrir klippinguna. " Nei, séra minn. Þú þjónar guði og ég tek ekki við greiðlsu frá honum." Daginn eftir voru 12 biblíur á tröppunum hjá honum. Nokkrum dögum síðar kom lögreglumaður í klippingu. Rakarinn vildi heldur ekki greiðslu frá honum." Nei, herra lögregluþjónn. Þú verndar mig og fjölskyldu mína." Daginn eftir voru 12 kókosbollur á tröppunum. Þarnæsta dag kom lögfræðingur í klippingu. Enn og aftur vildi hárskerinn enga greiðslu. " Nei vinur. Þú þjónar réttarkerfinu. Næsta dag mættu 12 lögfræðingar í klippingu. Kannski verður klippari með okkur lögmönnum á sjó í dag?
Viði Kimi, rauðir innst sem innst, sendum vinum okkar bestu kveðjur, ykkar Hösmagi.

Comments: Post a Comment

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Hit Counter
Tickets Broker Online